Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga
haldinn í Menningarhúsinu Kviku í Vestmannaeyjum dagana 3. og 4. maí 2014

1.    Fundarsetning. Kosning 2ja fundarstjóra og 2ja fundarritara, sem taka þegar til starfa. Lögmæti fundarins kannað.
Þorgeir Tryggvason, formaður Bandalagsins setti fundinn og stakk upp á Birki Högnasyni og Unni Guðgeirsdóttur frá Leikfélagi Vestmannaeyja sem fundarstjórum og Magnþóru Kristjánsdóttur, Leikfélagi Ölfuss og Önnu Maríu Hjálmarsdóttur, Freyvangsleikhúsinu sem fundarriturum.
Tillagan samþykkt.

Fundarmenn kynntu sig.

2.    Kjörnefnd afgreiðir kjörbréf og afhendir atkvæðaspjöld, skýrir stöðu mála varðandi stjórnarkjör og auglýsir eftir tillögum.
Dýrleif Jónsdóttir, Leikfélaginu Hugleik og formaður kjörnefndar óskaði eftir að þeim kjörbréfum yrði skilað sem ekki höfðu borist. Gerður Halldóra Sigurðardóttir, Leikfélagi Selfoss útdeildi atkvæðaseðlum. Dýrleif gerði grein fyrir stöðu mála vegna stjórnarkjörs.

3.    Menningarstefna Bandalagsins lesin og rædd.
Ólöf Þórðardóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar og ritari stjórnar las Menningarstefnu Bandalagsins. Engar umræður.

4.    Staðfest inntaka nýrra félaga, félög tekin af félagaskrá.
Bernharð Arnarson, Leikfélagi Hörgdæla sagði frá því að Leikklúbburinn Spuni, Leikdeild Umf. Vöku og Leikdeild Umf. Stafholtstungna hefðu sagt sig úr Bandalaginu en það síðastnefnda gekk í Bandalagið fyrr á þessu ári en segir sig úr því aftur. Leikfélag Norðfjarðar sækir um inngöngu. Hlé var gert á afgreiðslu þessa liðar meðan kjörnefnd kláraði að deila út atkvæðaseðlum. Að því loknu samþykkti fundurinn úrsögn og inngöngu áðurtaldra félaga.

5.    Fundargerð síðasta aðalfundar afgreidd.
Fundarstjóri bar fundargerð síðasta aðalfundar undir fundinn og var hún samþykkt.

6.    Skýrsla stjórnar.
Þorgeir Tryggvason flutti skýrslu stjórnar:

Skýrsla stjórnar á aðalfundi Bandalags íslenskra leikfélaga í Vestmannaeyjum 3.–4. maí 2014

I – Stjórn
Á starfsárinu skipuðu stjórn  þau:
Þorgeir Tryggvason, Reykjavík, formaður
Guðfinna Gunnarsdóttir, Selfossi, varaformaður
Ólöf Þórðardóttir, Mosfellsbæ, ritari
Halldór Sigurgeirsson, Eyjafjarðarsveit, meðstjórnandi
og Þráinn Sigvaldason, Borgarfirði eystri, meðstjórnandi

Í varastjórn sátu Þrúður Sigurðar, Bernharð Arnarson, Embla Guðmundsdóttir, Ylfa Mist Helgadóttir og Salbjörg Engilbertsdóttir.

Í þjónustumiðstöðinni starfar síðan Vilborg Valgarðsdóttir framkvæmdastjóri og til skamms tíma einnig Ármann Guðmundsson, ritari.

Fimm stjórnarfundir voru haldnir á árinu, allir í höfuðstöðvunum í Reykjavík, eða í tengslum við aðalfundi. Sú tilraun var gerð á síðasta fundi í Þjónustumiðstöðinni að einn fundarmanna hafði ekki líkamlega nærveru, heldur birtist okkur á skjá þar sem hann sötraði kaffið sitt á Borgarfirði eystra. Tókst það hið besta og verður vafalaust framhald á þegar stjórnarmenn eiga illa heimangegnt, fyrir utan þann sparnað sem af hlýst.  Stjórnarmönnum og starfsfólki er þakkað fyrir góða og vinnusama fundi á starfsárinu.

II – Starfsemi félaganna
36 aðildarfélög Bandalagsins sendu inn styrkumsóknir fyrir alls 84 leiksýningar og leikþætti, 11 námskeið og 26 skólanemendur fyrir leikárið 2012-13. Fullur styrkur reyndist vera 271,856 krónur. Ársritið okkar inniheldur síðan allar frekari upplýsingar um starfsemina. Ekki liggja fyrir tölur um umfang starfsins á þessu leikári en engin ástæða til að ætla annað en það sé svipað og verið hefur. Félögin í Bandalaginu eru nú 58 talsins.

III – Starfsáætlun
Á síðasta aðalfundi var að venju samþykkt starfsáætlun og mun ég fara yfir hana og geta þess hvernig unnið var að hverjum lið fyrir sig.
Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
Fastir liðir starfseminnar, skólinn og vefurinn eru meira og minna í höndum til þess kjörinna nefnda og munu fulltrúar þeirra fara yfir þá þætti sem undir þá heyra undir þartilgerðum dagskrárlið.

Á aðalfundi í Logalandi í maí á síðasta ári var samþykkt áætlun um hvernig ætti að bregðast við þröngri fjárhagsstöðu samtakanna, m.a. með breytingum á starfsmannahaldi. Á stjórnarfundi þann 5. október sl. var ákveðið að segja ritara Bandalagsins, Ármanni Guðmundssyni upp störfum og lækka starfshlutfall Vilborgar tímabundið í 80% þannig að hún yrði ekki við störf í nóvember og desember. Þetta voru sorglegar aðgerðir, í raun harkalegri en við höfðum gert okkur vonir um að dyggðu á Logalandsfundinum. Það er mikil eftirsjá af hinum frábæra ritara og óneitanlega hefur það umtalsverð praktísk áhrif að hafa aðeins einn starfsmann þó öflug og heilsuhraust sé.
Í öllu þessu umróti hafa Ármann og Vilborg bæði sýnt ótrúlegt ærðuleysi og vilja til að láta hag Bandalagsins ganga fyrir sínum eigin. Fyrir það stendur stjórn Bandalagsins í þakkarskuld við þau, og samtökin öll.

Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
Framlag til starfsemi áhugaleikfélaganna er nú 16,2 milj. kr. Til þjónustumiðstöðvarinnar er framlagið 5 milj. kr. á ári samkvæmt samningi sem gildir til loka ársins 2015.
Við stöndum í einhverskonar skjóli samningsins við mennta- og menningarmálaráðuneytið þó ófullnægjandi sé, en jafnframt bindur hann hendur okkar. Það er auðvelt fyrir stjórnvöld að banda frá sér beiðnum um endurskoðun meðan hann er í gildi. Þannig hefur legið fyrir mánuðum saman beiðni um fund með nýjum ráðherra sem ekki hefur verið sinnt.
Hitt er ekki síður brýnt að þrýsta á um hækkuð framlög til leikfélagnna, sem nagað hefur verið stanslaust af árum saman.
Tilraun til að fá Reykjavíkurborg til að koma að rekstri Bandalagsins með einhverjum hætti reyndist árangurslaus og ljóst er að styrkir frá einkaaðilum verða ekki sóttir svo glatt til að fjármagna afmarkaða starfsemi. Á sama tíma gera starfsmannamálin okkur illgerlegt að standa í umfangsmiklum sérverkefnum.

Sérverkefni ársins
Skipuleggja stuttverkahátíð NEATA á Íslandi vorið 2014.
Ákveðið hefur verið að færa þessa hátíð til hausts og er ætlunin að hún verði 4. október. Staðsetning hennar liggur ekki endanlega fyrir. Erfiðlega hefur gengið að fá upplýsingar um hvort Færeyingar væru tilbúnir og ákveðnir í að láta verða af komu sinni, en í fyrradag staðfesti formaður MÁF að þau stefni að því að koma með fimm sýningar í haust. Þetta er tilhlökkunarefni sem við skulum standa vel að. Ekki veitir af smá upplyftingu og engir betur til þess fallnir en Færeyingar.

Að stjórn kanni möguleika á að halda leiklistarhátíð 2015 og hefji undirbúning, telji stjórn slíka hátíð framkvæmanlegt verkefni.
Það er mat stjórnar að við núverandi aðstæður sé illmögulegt að ráðast í stórverkefni af þessu tagi.

Önnur mál
Á síðasta aðalfundi var í fyrsta sinn felldur burt liður undir fastri starfsemi sem lýtur að samstarfið við Þjóðleikhúsið með Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins. Rétt er þó að geta þess að þangað fór Leikfélag Fjallabyggðar með sýninguna Stöngin inn eftir Guðmund Ólafsson sem einnig leikstýrði. Í ár eru sextán sýningar í pottinum og verður ein þeirra veidd upp úr honum af fulltrúa Þjóðleikhússins í kvöld.

Á Logalandsfundinum var stjórn einnig falið að leita eftir breytingum á samningum vegna höfundagreiðslna vegna stuttverka. Formaður sendi erindi um málið til Rithöfundasambandsins, en hefur engin svör fengið. Það var svo ekki fyrr en við undirbúning þessa fundar að rann upp fyrir mér að auðvitað átti ég að beina orðum mínum til Félags leikskálda og handritshöfunda, en þar eru hæg heimatökin, tveir stjórnarmanna koma úr röðum áhugaleikhússfólks, þau Ármann Guðmundsson og Hrund Ólafsdóttir. Ég lofa að koma þessu máli í réttari og árangursríkari farveg.

Eitt af því sem hefur þurft undan að láta í niðurskurði undanfarinna ára er erlent samstarf. Með stuðningi NEATA-þjóðanna tókst þó Vilborgu að sækja fundi þeirra samtaka og alþjóðasamtakanna í Mónakó í ágúst sl., þó með talsverðum fjárútlátum úr eigin vasa. Í sumar munum við Vilborg bæði sækja aðalfund NEATA sem haldinn verður í tengslum við leiklistarhátíð samtakanna í Porvoo í Finlandi, á eigin kostnað.
Það er eiginlega óhugsandi að hætta alfarið þátttöku í slíku samstarfi. Enn ein ástæða þess að brýnt er að halda áfram í þeirri tangarsókn sem stendur yfir: að koma fjárframlögum til okkar á raunhæft stig og sníða stakk eftir vexti.

Gert í Reykjavík 1. maí 2014,
Þorgeir Tryggvason, formaður

7.    Framkvæmdastjóri leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs og skýrir þá.
Vilborg Valgarðsdóttir, framkvæmdastjóri Bandalagsins lagði fram og skýrði reikninga. Heldur lítur hann betur út en fyrir ári en niðurstaða rekstrarreiknings sýndi 295.637 króna hagnaði í ár. Munar þar miklu um fjárframlög frá eftirtöldum félögum sem styrktu Bandalagið í átakinu Björgum Bandalaginu: Umf. Grettir, Leikfélag Selfoss, Leikfélag Hörgdæla, Umf. Biskupstungna, Leikfélag Selfoss, Hugleikur, Leikfélag Mosfellssveitar, Leikfélag Fljótsdalshéraðs og Leikfélag Hörgdæla aftur. Samtals námu þessir styrkir um 1.000.000 króna. Fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár verður dreift til fundarmanna á fundinum.

8.    Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla reikninga.
Litlar umræður til að byrja með. Þorgeir Tryggvason steig í pontu og ræddi um að skýrslur stjórnar og framkvæmdastjóra væru í raun þau málefni sem fundurinn snýst um. Hann kynnti að hópastarf á fundinum yrði með nýju sniði.
Hörður Sigurðarson, Leikfélagi Kópavogs spurði hvort stjórn Bandalagsins væri með langtímaplan varðandi reksturinn og hvort þyrfti ekki að skoða að gera t.d. fimm ára plan. Elli Hafliðason, Leikfélagi Selfoss hrósaði framkvæmdastjóra og stjórn fyrir að skila hagnaði en benti á að ef ekki væri fyrir framlögin frá leikfélögunum væri staðan um 2 milljónir í mínus. Hvort hægt væri að gera áætlun sem myndi skila Bandalaginu hagnaði þó ekki kæmi til þessara framlaga. Halldór Sigurgeirsson, Freyvangsleikhúsinu þakkaði þeim félögum sem lögðu til framlög til Bandalagsins því til bjargar. Þorgeir minntist á að fjárhagsáætlun næsta árs muni skýra ágætlega hvernig málin munu þróast. Vilborg fékk leyfi fundarstjóra til að dreifa fjárhagsáætlun næsta árs til fundarmanna en þar er gert ráð fyrir 1 mkr. framlagi af verkefnastyrk aðildarfélaganna í sumar. Atkvæði greidd vegna reikninganna í heild, og var ársskýrslan samþykkt með öllum atkvæðum. Enginn andmæli.

9.    Skýrslur nefnda og umræður um þær.
Dýrleif Jónsdóttir flutti skýrslu skólanefndar:

Skýrsla skólanefndar á aðalfundi BÍL 3.-4. maí 2014.

Árið 2013 var skólanefnd Bandalagsins skipuð sömu fulltrúm og setið hafa undanfarin ár – hana skipa Hrefna Friðriksdóttir, Dýrleif Jónsdóttir, Gunnhildur Sigurðardóttir, Herdís Þorgeirsdóttir og Hrund Ólafsdóttir. Skólanefndin ber höfuðábyrgð á að skipuleggja starf leiklistarskóla Bandalagsins og fundar reglulega allt árið. Ég nota þetta tækifæri til að þakka öllum samnefndarkonum mínum fyrir metnaðarfullt og skemmtilegt samstarf.

Leiklistarskóli Bandalagsins var settur í 17. sinn þann 8. júní 2013 að Húnavöllum í Húnavatnshreppi. Þar var tekið vel á móti hópnum eins og undanfarin ár og þjónustan var fyrsta flokks. Við lögðum staðinn undir okkur, og nýttum alla króka og kima frá morgni til kvölds í lærdóm og leikaraskap.

Í fyrra ákváðum við að bjóða upp á 4 námskeið en enduðum með að hafa þau 3. Námskeið sem Þórey Sigurjónsdóttir ætlaði að halda fyrir reyndari leikara var fellt niður vegna dræmrar þátttöku. Skólann árið 2013 sóttu alls 41 nemandi. Námskeiðin voru:

1. Leiklist II. Kennari Árni Pétur Guðjónsson.
2. Framhaldsnámskeið í leikstjórn. Kennari Rúnar Guðbrandsson.
3. Leikritun I. Kennari Karl Ágúst Úlfsson.

Niðurstöður viðhorfskönnunar bentu til almennrar ánægju með skólastarfið.

Árið 2014 verður leiklistarskólinn settur að Húnavöllum þann  14. júní.  Boðið er upp á þrjú námskeið:

Ágústa Skúladóttir mun kenna Leiklist I – þar eru skráðir 18 nemendur og 3 á biðlista.
Karl Ágúst Úlfsson mun kenna Leikritun II – þar eru skráðir 13 nemendur.
Rúnar Guðbrandsson mun kenna sérnámskeið fyrir leikara  – þar eru skráðir alls 16 nemendur og einn á biðlista.

Ljóst er að skólinn heldur áfram að sanna gildi sitt ár frá ári enda fylltist hratt og örugglega í öll námskeiðin. Námskeiðsgjald hækkar aðeins milli ára og er nú kr. 78.000.- en var kr. 73.500.- árið 2013. Við höfum fulla trú á því að staðarhaldari að Húnavöllum geri allt til að halda kostnaði í lágmarki og að þessi hækkun sé óumflýjanleg.

Hér lýkur þá skýrslu skólanefndar sem hlakkar til skólaársins. Takk fyrir.

Fyrir hönd skólanefndar,
Hrefna Friðriksdóttir, skólastýra

Hörður Sigurðarson flutti skýrslu vefnefndar.

Skýrsla vefnefndar 2014
Lögð fram á aðalfundi BÍL í Vestmannaeyjum 4. maí 2014

Leiklistarvefurinn er eins og aðrar stofnanir hreyfingarinnar, farinn að finna fyrir bágri fjárhagsstöðu. Líkt og kom fram í síðustu ársskýrslu vefnefndar er orðið tímabært að huga að uppfærslum ýmiskonar, hvortveggja vegna öryggismála en einnig til að vefurinn geti sinnt sínu hlutverki af þokklegri reisn. Vefurinn þjónar þó enn markmiðum sínum að flestu leyti og eflaust nýtast þær fáu krónur sem til skiptanna eru betur á öðrum stöðum enn um sinn.
Af daglegum rekstri eru ekki mikil tíðindi. Hann gengur sinn vanagang og ekki enn farið að finna tilfinnnanlega fyrir því að skorið hafi verið niður í starfsmannahaldi í viðhaldinu. Það má þó gera ráð fyrir að framkvæmdastjóri finni frekar fyrir því en Lénsherrann og ekki ósennilegt að eftir því sem tíminn líður komi áhrif niðurskurðar betur í ljós.
Allt það sem sagt var í síðustu ársskýrslu varðandi öryggismál og uppfærslur á jafn vel við núna og í fyrra. Okkar vörn er sennilega helst sú að vefurinn telst ekki stór á heimsvísu og kannski ekki eftir miklu að slægjast hjá tölvuþrjótum heimsins. Þrátt fyrir þetta er ástæða til að halda því á lofti að ef og þegar Bandalaginu tæmist arfur væri margt heimskulegra hægt að gera en að uppfæra vefinn og huga að uppfærslum á tölvukosti.
Undirritaður hefur um nokkurt skeið rekið áróður fyrir því að koma í gagnið vefverslunarkerfi með aðaláherslu á myndræna framsetningu og meiri og betri upplýsingar um vörurnar sem til sölu eru. Slíkt er enn frekar tímabært nú þegar skorið hefur verið niður í stöðugildum á skrifstofunni. Með vefverslun, þar sem hægt er að fá greinargóðar upplýsingar um vörur og jafnvel panta á vefnum þegar fram líða stundir, væri hægt að stytta þann tíma sem fer í fyrirspurnir og afgreiðslu í Þjónustumiðstöðinni.
Enn vil ég ítreka þá þá skoðun Lénsherra sem komið hefur fram í fyrri ársskýrslum um að sóknarfæri séu í að nota vefinn til fjáröflunar fyrir Bandalagið, t.d. með því að efla verslunina eins og áður er sagt og ekki síður með sölu auglýsinga. Félagar mega gjarnan hafa augu og eyru opin fyrir möguleikum á því. Einnig skal enn og aftur ítrekað að allar góðar hugmyndir um reksturinn eru vel þegnar.

Fyrir hönd vefnefndar,
Hörður Sigurðarson

Að lestri skýrslu loknum fór Hörður yfir stefnu og markmið Leiklistarvefs Bandalagsins.

Ármann Guðmundsson flutti skýrslu handritasafnsnefndar:

Skýrsla handritasafnsnefndar
Flutt á aðalfundi  Bandalags íslenskra leikfélaga 3. maí 2014

Í handritasafnsnefnd sitja Ármann Guðmundsson, Hrefna Friðriksdóttir og Örn Alexandersson.

Lítið hefur gerst í handritasafnsmálum árinu fyrir utan hefðbundin aðföng frá Bandalagsleikfélögum og atvinnuleikhúsunum og skráning þeirra. Undirritaður hætti störfum hjá Bandalaginu í byrjun árs og þar með færðist umsjón handritasafnsins alfarið í hendur Vilborgar framkvæmdastjóra (eins og allt annað). Fjöldi handrita í safninu nú er um 3800 titlar.

F.h. handritsafnsnefndar,
Ármann Guðmundsson

Umræður um skýrslur nefnda:
Elli spurði um kostnað og framkvæmd vegna vefverslunar. Hörður svaraði því til að það vantaði í raun mannskap til að setja upp vefverslunina. Vilborg greindi frá því að á vefnum væri alltaf auglýst vara vikunnar þar sem hægt er að skoða ýmsar upplýsingar um vörurnar. Þannig verður til smátt og smátt upplýsingagrunnur um vörur þær sem eru til sölu hjá Bandalaginu. Sigríður Hafsteinsdóttir, Leikfélagi Selfoss lýsti yfir ánægju sinni með Leiklistarvefinn og skólann og allt annað sem Bandalagið stendur fyrir. Hörður spurði hvort til stæði að laga kynjahallann í skólanefnd og Dýrleif svaraði því til að svo væri ekki þar sem skólanefnd væri skipuð til tveggja ára í senn með skipunarbréfi frá stjórn. Karlmenn eru hinsvegar hjartanlega velkomnir hafi þeir áhuga og óskaði Dýrleif eftir ábendingum til stjórnar varðandi þetta. Hún notaði svo tækifærið og auglýsti eftir framboðum í stjórn. Hörður spurði hvort ekki væri ástæða til þess að birta t.d. á vefnum hvaða reglur gilda um hvernig skipað er í nefndir og hverjar stefnur og áherslur nefndanna eru. Ekki fleiri umræður.

10.    Drög að starfsáætlun næsta árs kynnt og skipað í starfshópa.
Guðfinna Gunnarsdóttir, varaformaður kynnti tillögu stjórnar að starfsáætlun næsta leikárs. Stjórn ákvað að breyta fyrirkomulagi hópastarfs. Skipt verður í fjóra hópa sem ræða tiltekin málefni til hádegishlés og haldi síðan áfram í klukkutíma eftir hádegi. Lagðar verða fyrir hópana fjórar spurningar, ein á hóp sem taka þarf tillit til þegar starfsáætlun er rædd.

Hörður Sigurðarson stýrir hópi 1 – umræðuefni Þjónustan – Hvernig bregðumst við við þrengri stakk? Getum við nýtt vefinn betur? Getum við auðveldað Þjónustumiðstöðinni störfin?
Helena Helgadóttir stýrir hópi 2 – umræðuefni Búðin – hvernig komum við vörunum okkar á framfæri víðar og betur á viðráðanlegan hátt (peninga- og tímalega)?
Gísli Björn Heimisson stýrir hópi 3 – umræðuefi Skólinn – Getum við gert hann enn betri? Hvernig?
Hulda B. Hákonardóttir stýrir hópi 4 – umræðuefni Bandalagið – Hvað getum við gert til að gera Bandalag íslenskra leikfélaga sýnilegra meðal almennings, þannig að ljóst sé hversu mikilvæg starfssemi Bandalagsins er leiklistarmenningu í landinu.

Niðurstöður hópa:
Starfshópur 1 – Þjónustan – Hvernig bregðumst við við þrengri stakk? Getum við nýtt vefinn betur? Getum við auðveldað Þjónustumiðstöðinni störfin?

Þátttakendur:
Eygló Björg Jóhannsdóttir, Leikfélag Seyðisfjarðar
Anna María Hjálmarsdóttir, Freyvangur
Sigríður Hafsteinsdóttir, Leikfélag Selfoss
Oddfreyja Halldóra, Leikfélag Ölfuss
María Guðmundsdóttir, Leikfélag Mosfellssveitar
Axel Vatnsdal, Leikfélag Hörgdæla
Halla Sigurðardóttir, Litli Leikklúbburinn
Ágúst Magnússon, Leikfélag Seyðisfjarðar
Hörður Sigurðarson hópstjóri, Leikfélagi Kópavogs

Vefverslun
Setja upp vefverslun. Til að minnka fyrirspurnir um vörur símleiðis og með tölvupósti með því að setja upp og viðhalda vefverslun með upplýsingum og myndum.
Stefna á að því að í náinni framtíð sé einnig hægt að panta vörur á vefnum.
Sjálfboðavinna á Þjónustumiðstöð.
Mesta álagið í júní í kringum umsóknir fyrir úthlutun og undirbúning fyrir skólann. Mögulega hægt að nota hjálparhendur þá og ráð að auglýsa eftir slíkum.
Ræstingar – Athuga hvort hægt sé að setja upp sjálfboðaliðakerfi til að annast ræstingar á Þjónustumiðstöð. 10-12 manna hópur gæti skipt með sér verkum.
Ársritið:
Útvista uppsetningu og frágangi ársrits.
Gera þá kröfu að félögin skili skýrslum á tölvutæku formi auk pappírs þannig að einfaldara sé að setja þær inn í ársritið.
Styrkumsóknir – Koma upp kerfi til að félögin geti fyllt út og sent inn umsóknir á vefnum.
Auka vöruúrval í Leikhúsbúðinni. Er grundvöllur fyrir því að auka úrval í verslun? Gerast t.d. umboðsaðili fyrir theatrehouse.com eða sambærileg?
Auglýsingar á vefnum. Hvetja leikfélögin til að kaupa smáauglýsingu á vefnum í tengslum við frumsýningar.

Aukahugmynd:
Hollvinasamtök – Hugmynd að stofna slík samtök þar sem fólk getur skráð sig fyrir mánaðarlegum styrk til Bandalagsins.

Starfshópur 2 – Búðin – hvernig komum við vörunum okkar á framfæri víðar og betur á viðráðanlegan hátt (peninga- og tímalega)?

Hópstjóri: Helena – Leikfélagi Ölfuss
Aðrir í hóp: Rögnvaldur – Umf. Skallagríms
F. Elli Hafliðason – Leikfélagi Selfoss
Þrúður Sigurðar – Leikfélagi Ölfuss
Linda Guðmunds – Freyvangsleikhúsinu
Sólveig Heiðrún – Leikfélagi Fljótsdalshéraðs
Lilja Kristin – Leikfélagi Seyðisfjarðar
Árni Þorleifsson – Leikfélagi Vestmannaeyja
Erna Björk – Leikfélaginu Sýnir

Rætt var um búðina og hópurinn var sammála um að vörurnar séu vandaðar og góðar á viðráðanlegu verði.

Allir voru sammála um að leikfélögin þyrftu að vera dugleg að auglýsa vörurnar og verslunina útávið með því að deila á fésbókinni, láta orðið berast til skóla, leikskóla og annarra hópa, breiða út fagnaðarerindið.

Hugmyndir komu upp að nýta myndir og vísa í vídeó á netinu til að skoða gervi og möguleika varanna. Lýsingarnar einar og sér séu ekki nóg þar sem möguleikarnir séu ekki síður í reynslunni frá þeim sem eru að skapa gervi og búa til listaverk á sviðum landsins. Eins að leikarar og aðilar sem eru að nota vörurnar séu duglegir að auglýsa þær við aðra aðila. Eins sé hægt að vísa í vörurnar í leikskrám.

Mikið var talað um að það sé brýnt að allar upplýsingar og innihaldslýsingar á vefnum séu tæmandi og komist inn á vefinn. Hugsanlega væri hægt að mynda hóp sem kæmi saman og gengi í verkið á einum góðum degi eða jafnvel oftar. Mjög brýnt sé að vefverslunin sé öflug, sýnileg og gagnvirk. Það sé einnig mikilvægt að verð séu inni.

Einnig var rætt um að tími væri kominn á förðunarnámskeið sem leikfélögin mættu vera mikið duglegri að tala fyrir þar sem síðasta námskeið var fellt niður vegna dræmrar aðsóknar.

Rætt var um að mjög lítið úrval væri af hárkollum og erfitt að nálgast þær. Það var þó skilningur á að þær séu dýrar og ekki auðvelt að eiga mikinn lager af þeim. Skoða þyrfti hvernig væri hægt að bæta aðgengi að þeim og eins að kynna fleiri möguleika á að búa til hárkollur og gervi sjálf.

2. Skipuleggja stuttverkahátíð NEATA á Íslandi 4. oktbóber 2014.

Hópurinn ræddi um slíka hátíð og rifjaði upp Margt smátt hátíðina á Seltjarnarnesi þar sem Færeyingar tóku þátt og var mjög skemmtileg og vel heppnuð. Fannst hópnum verkefnið mjög spennandi og vill endilega að af hátíðinni verði og sérstök ánægja með þátttöku Færeyinga. Þeir sem höfðu reynslu af stuttverkadagskrám í sínum leikfélögum deildu reynslu sinni af slíku starfi og ítrekuðu mikilvægi þess í starfi félaganna og hversu mikið það skilar til baka. Slík hátíð sé því mjög skemmtilegur og góður vettvangur fyrir félögin að stefna á.

Bent var á að gaman væri að fá fleiri lönd til að taka þátt í slíkri hátíð þó það gæti kallað á lengri og dýrari ferðalög á slíkar hátíðir í framtíðinni sem gæti verið letjandi fyrir sum félög.

Starfshópur 3 – Skólinn: Getum við gert hann enn betri? Hvernig?

Þátttakendur:
Gísli – Leikfélag Hafnarfjarðar
Ármann – Leikfélagið Sýnir
Gerður – Leikfélag Selfoss
Gunnlaug –  Umf. Skallagrímur
Lilja Jóna – Leikfélag Selfoss
Ingibjörg Lárusdóttir – Leikfélag Seyðisfjarðar
Sigurður Snæbjörn – Leikfélag Seyðisfjarðar
Halldóra – Freyvangsleikhúsið
Bára – Umf. Reykdæla

Lilja – hefur heyrt mikið af skólanum
Gísli, Ármann og Gerður eru þau einu í hópnum sem hafa farið í skólann.
Ármann renndi yfir starfsemi skólans í stuttu máli.
9 dagar – unnið á hverjum degi 9-12 og 2-6
Lilja – er hægt að hafa leiklist 1 oftar en bara á 2-3 ára fresti. Dýrleif: Nei, það er ekki pláss fyrir fleiri en eitt stórt „hreyfinámskeið“  í einu.
Þau sem til þekktu töldu að Bandalagsskólinn eins og hann er í dag, sé í mjög góðum farvegi og í góðum höndum.
Gísli nefndi hvort hugmynd væri að hvort hægt væri að taka t.d. hálfan dag frá á hverju námskeiði í skólanum til að kenna eitthvað annað en það sem væri á námskeiðinu en leiðrétti sig síðan og sagði að í raun væri það til staðar í skólanum nú þegar, á föstudegi væri heimsókn í bekki þ.s. nemendur kynntust því hvað væri verið að gera á hinum námskeiðunum. T.d. hefði eitt árið verið skipst á. Nemendum hefði verið blandað og síðan hefðu hóparnir fengið að vera hjá kennaranum í um klst í kennslu.
Dýrleif – beint var þeim tilmælum til leikfélaga að koma sér saman í landsfjórðungunum um að halda tækninámskeið.
Planið er að Leiklist I og II skiptist á sitt hvort árið.
Hugmynd: Hafa framkvæmdar – produksjón námskeið. Áætlunargerð og framkvæmdastjórn leiksýninga. Konkret námskeið, ekki glærusýningu.
Halldóra spurði hvort hægt væri t.d. að hafa námskeið í barnaleikritum. Spunnust umræður um það í hverju það fælist í raun.
Tekið var kaffihlé.

Rætt var um inntökuskilyrði og hvað þyrfti til að komast á námskeið, að það þyrfti að tiltaka allt sem viðkemur leiklist þegar sótt væri um (Dýrleif)
Lilja nefndi hvort ekki væri hægt að kynna skólann innan þeirra leikfélaga sem ekki senda neinn í skólann því, eins og Ármann nefndi, þegar einn hefur farið í skólann, þá fylgja fleiri á eftir á næstu árum. Mórallinn innan leikfélagsins skiptir miklu máli (Gerður).
Hugmynd: Búa til kynningarmyndband/stiklur fyrir skólann/námskeiðin, þ.s. kynning á skólanum er ekki alveg nóg (Gunnlaug).
Hugmynd: Búa til ítarlegra kynningarefni fyrir námskeiðin og skólann sjálfan.

Starfshópur 4 – Bandalagið – Hvað getum við gert til að gera Bandalag íslenskra leikfélaga sýnilegra meðal almennings, þannig að ljóst sé hversu mikilvæg starfssemi bandalagsins er leiklistarmenningu í landinu.

Hulda Hákonardóttir, Hugleik
Fanney Valsdóttir, Leikfélagi Hörgdæla
Hulda Gunnarsdóttir, Leikfélagi Ölfuss
Magnþóra Kristjánsdóttir, Leikfélagi Ölfuss
Steingrímur Rúnar Guðmundsson, Litli leikklúbburinn Ísafirði
Eydís Bára Jóhannsdóttir, Leikfélagi Seyðisfjarðar
Rúnar Gunnarsson, Leikfélagi Seyðisfjarðar
Unnur Guðgeirsdóttir, Leikfélagi Vestmannaeyja
Guðrún Ester Árnadóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar

1. Byrja „heima“. Bandalagið minni stjórnir leikfélaganna reglulega á tilvist sína og hvetji til kynningar á mikilvægi starfseminnar, bæði við félagsmenn og „fjárveitingarvald“ á sínu svæði. Fá e.t.v. kynningarfund með einhverjum frá Bandalaginu.
2. Efla umfjöllun/sýnileika í leikskrám. Staðlaður texti frá Bandalaginu og ávarp frá formanni þess eða stjórn. Auglýsing frá Bandalaginu/verslun/netverslun í hverja leikskrá.
3. Auka umfjöllun um starfsemi leikfélaganna og mikilvægi þjónustu Bandalagsins í því samhengi. Fréttatilkynningar – bjóða einhverjum í leikhúsið gegn því að fá umfjöllun einhvers staðar. Stækka umfjöllun um Þjóðleikhússýninguna. Leiklist.is í „ketti“ (myndi auka umferð um vefinn).
4. Búðin/netverslun. Gera hana sýnilegri. Hvetja fólk og bjóða því að vera á póstlista leiklist.is. Því sterkari og sýnilegri sem leikfélögin eru því sterkara verður Bandalagið.

Umræður um niðurstöður starfshópa. Fyrirspurn barst um hvort hægt væri að halda námskeið í leikmyndagerð og smíði. Ármann ræddi um vefinn og benti á að það gæti verið góð hugmynd að setja inn kynningarmyndbönd um t.d. skólann fyrir þá sem vilja kynna sér hann. Elli sagði frá landshlutanámskeiði sem Leikfélag Selfoss hélt fyrir tæknimenn. Hann benti á að sniðugt væri fyrir félögin úti á landi að halda slík námskeið. Einnig ræddi hann um að kynna þyrfti skólann fyrir þeim sem ekki hafa sótt hann áður, t.d. með því að setja inn kynningarmyndbönd á netið. Þorgeir þakkaði hópunum fyrir störf sín og áréttaði m.a. að hvetja þyrfti félögin til að vera betur til sýnis svo Bandalagið geti orðið það líka. Einnig minntist hann á að nýta þyrfti Þjóðleikhússýninguna betur sem kynningu. Hann tók þeirri hugmynd fagnandi að skrifa ávarp til að birta í leikskrám aðildarfélaganna og nefndi í því samhengi samskonar ávörp sem birt eru í tilefni Alþjóðaleiklistardagsins. Lilja Jóna Halldórsdóttir, Leikfélagi Selfoss sagðist aldrei hafa séð Facebooksíðu Bandalagsins og minnti á hversu stór markhópur leynist á þeim miðli. Erna Björk nefndi hóp sem til er á Facebook fyrir nemendur skólans og upp kom sú hugmynd að gera „like“síðu fyrir skólann. Sigríður Hafsteinsdóttir bað fólk að segja öðrum frá út á hvað Bandalagsþing ganga. Elli kom með hugmynd um að setja upp miða í leikhúsunum þar sem vakin yrði forvitni fólks á að kynna sér Bandalagið

11.    Kjörnefnd tilkynnir niðurstöður sínar og mælir með a.m.k. 1 aðila í hvert sæti sem kjósa skal í.
Dýrleif lagði til að þessum lið yrði frestað þar til í lok dags og var það samþykkt.

12. Lagabreytingar.
Engar lagabreytingar lágu fyrir fundinum.

13.    Tillögur lagðar fyrir fundinn.
Þorgeir Tryggvason lagði fram eftirfarandi tillögu:
Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga leggur til að 1 milljón króna af verkefnastyrk aðildarfélaganna verði látin ganga til rekstrar Þjónustumiðstöðvar Bandalagsins.
f.h. stjórnar, Þorgeir Tryggvason
Tillagan samþykkt.

Rúnar Gunnarsson lagði fram eftirfarandi tillögu:
Lagt er til að skólanefnd athugi með möguleika á námskeiðum í leikmyndagerð (hönnun og smíði) og í gerð búninga og leikgerfa.
f.h. Leikfélags Seyðisfjarðar, Rúnar Gunnarsson

Tillögu vísað til skólanefndar.

Fleiri tillögur bárust ekki.

14.    Starfsáætlun afgreidd.
Guðfinna Gunnarsdóttir las upp tillögu stjórnar að starfsáætlun Bandalagsins leikárið 2014-2015:

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Sérverkefni ársins

1. Skipuleggja stuttverkahátíð NEATA á Íslandi 4. október 2014.

Umræður um starfsáætlun:
Þorgeir sagði frá stuttverkahátíð NEATA að ósk Emblu Guðmundsdóttur og svaraði fyrirspurnum varðandi hátíðina.

Starfsáætlun borin undir fundinn og var hún samþykkt.

15. Stjórnarkjör.
Gerður gerði grein fyrir framboðum. Guðfinna Gunnarsdóttir Leikfélagi Selfoss, Þráinn Sigvaldason Leikfélagi Fljótsdalshéraðs og Halldór Sigurgeirsson, Freyvangsleikhúsinu eiga að ganga úr aðalstjórn. Guðfinna, Þráinn og Bernharð Arnarson Leikfélagi Hörgdæla gefa kost á sér. Aðalstjórnarmenn því sjálfkjörnir og var nýrri stjórn fagnað með lófaklappi en hana skipa Þorgeir Tryggvason, Guðfinna Gunnarsdóttir, Ólöf A. Þórðardóttir og Þráinn Sigvaldason auk Bernharðs Arnarsonar.

Ylfa Mist Helgadóttir, Leikfélagi Bolungarvíkur og Bernharð Arnarson eiga að ganga úr varastjórn. Bernharð fer í aðalstjórn. Ylfa Mist gefur áfram kost á sér ásamt  Gísla Birni Heimissyni Leikfélagi Hafnarfjarðar og Brynhildi Sveinsdóttur Leikfélagi Mosfellssveitar. Haldnar voru magnaðar framboðsræður þar sem kosningastjórar þeirra tveggja sem fjarverandi voru á fundinum, Ylfu Mistar og Brynhildar, töluðu fyrir munn frambjóðenda auk þess sem Gísli gerði grein fyrir sér. Síðan var gengið til kosninga. Ylfa Mist og Gísli Björn voru kjörin og sitja því Þrúður Sigurðardóttir, Embla Guðmundsdóttir og Salbjörg Engilbertsdóttir auk þeirra í varastjórn.

16.    a. Kosning 3ja manna kjörnefndar og eins varamanns til eins árs.
Dýrleif Jónsdóttir, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir og Gerður Sigurðardóttir voru endurkjörnar og Erna Björk Hallbera Einarsdóttir til vara.

b. Kosning 2ja skoðunarmanna reikninga og eins til vara til eins árs.
Hrefna Friðriksdóttir og Anna Jórunn Stefánsdóttir voru endurkjörnar og Júlía Hannam til vara.

17.    Ákveðið árgjald til Bandalagsins.
Þrúður Sigurðar gerði grein fyrir tillögu stjórnar um árgjald aðildarfélaga.

Stjórnin lagði til óbreytt árgjald frá fyrra ári:
Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga leggur til að árgjöld aðildarfélaga fyrir leikárið 2014-2015 verði kr. 60.000.

Félög sem setja upp tvær styrkhæfar sýningar á leikárinu borgi eitt og hálft gjald eða 90.000 og félög sem setja upp þrjár sýningar eða fleiri borgi tvöfalt gjald eða kr. 120.000.

Félög sem setja ekki upp styrkhæfa sýningu á leikárinu borgi hálft árgjald eða 30.000.

Tillagan borin undir fundinn og var hún samþykkt.

18.    Önnur mál
Hulda Gunnarsdóttir, Leikfélagi Ölfuss lagði til að stofnaður yrði lokaður hópur á Facebook þar sem hægt væri að skiptast á leikmunum, búningum, tækjum og þess háttar og bauðst til að sjá um þetta. Í það var vel tekið og er hún því ráðin til verksins.

Þorgeir Tryggvason steig í pontu og lagði fram eftirfarandi ályktun:

Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga haldinn í Vestmannaeyjum 3.-4. maí 2014 harmar það að fulltrúar Halaleikhópsins hafi þurft að hætta við þátttöku á fundinum eftir að hafa lagt á sig ferðlag frá Reykjavík í trausti þess að upplýsingar um aðgengi fyrir fatlaða á gististað væru réttar.
Stjórn Bandalagsins mun gera sitt ítrasta til að slíkt komi ekki fyrir aftur á fundum og öðrum viðburðum samtakanna og mun  óska eftir samstarfi við Halaleikhópinn og Sjálfsbjörg við mótun verklagsreglna þar um.
Samþykkt samhljóða.

Unnur Guðgeirsdóttir sagði frá því hversu mikil vinna var að finna leikverk hjá Leikfélagi Vestmannaeyja þetta leikár. Hún harmar að það sé ekki hægt að sýna hvaða söngleiki sem er nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og teknu tilliti til atvinnuleikhúsa þegar velja þarf verk. Nefndi hún snobb í því samhengi, að atvinnuleikhúsin vilji ekki setja upp leikverk sem áhugaleikhúsin hafa notað. Einnig kom hún inn á búningasafn Þjóðleikhússins og aðgengi áhugaleikhúsanna að því.

Birkir tók í sama streng og Unnur og er sammála henni í því að breyta þurfi hugsunarhættinum þannig að atvinnuleikhús geti sett upp sömu sýningar og áhugaleikhús og öfugt.

Hulda Hákonardóttir talaði á sömu nótum og fagnaði þessari umræðu. Hún benti á að það væri mikilvægt fyrir leikskáld að fá verk sín sýnd sem oftast og þannig ætti ekki að skipta máli hver setur það upp.

Þorgeir kvaðst ekki bjartsýnn á að skilyrðum um höfundarrétt yrði breytt, t.d. varðandi söngleiki. Hann nefndi að það væri hagur höfunda að atvinnuleikhúsin tækju verk þeirra til sýninga frekar en áhugaleikhús. Hann nefndi nokkur dæmi um leikverk sem hafa verið frumflutt hjá áhugaleikhúsum og síðar tekin upp hjá atvinnuleikhúsunum.

Ármann kom inn á að hann hefði rekið sig á að það væru ekki einungis söngleikir sem þessi vandi ætti við um.

Vilborg ræddi áfram um höfundarréttarmál og útskýrði hvaða reglur gilda um þau.

Erna Björk skoraði á Vestmannaeyinga að setja upp frumsaminn söngleik.

Elli breytti um umræðuefni og ákvað að hverfa aftur til tillögu Huldu um hóp á Facebook. Honum líst vel á tillöguna og sér fyrir sér að þetta muni stytta leiðina töluvert þegar finna þarf tengiliði við leikfélögin.

Birkir benti á að það væri ekki nóg að tala um hlutina heldur framkvæma því þessi umræða hefur komið upp áður. Hulda Gunnars ítrekaði að þetta yrði framkvæmt hið snarasta.

Embla ræddi miðaverð á sýningar og hvort félög ættu að hafa samráð um miðaverð. Hún velti fyrir sér inngöngu og úrsögn Umf. Stafholtstungna nú í vor og ástæðum þess. Í því samhengi nefndi hún mikilvægi þess að að upplýsingar um starfsemi Bandalagsins berist til almennra félaga en strandi ekki hjá stjórnum, svo allir viti nú hvaða þjónustu Bandalagið býður upp á.

Elli sagði frá því hvernig Leikfélag Selfoss ákveður miðaverð og ræðst það oftast af kostnaði við sýningu og einnig hversu hátt er þorandi að fara án þess að fólk hætti að mæta á sýningar. Einnig eru þau með allskonar tilboð fyrir hópa og þess háttar.

Axel Vatnsdal, Leikfélagi Hörgdæla sagði einnig frá miðaverði í sínu félagi og út frá því bárust ýmsar tölur úr sal og augljóst að miðaverð er mjög ólíkt frá félagi til félags.
Fram kom í umræðum um miðaverð það það er á bilinu 1900-3000 kr.

Þorgeir steig þá í pontu og hrósaði fundarmönnum fyrir að ræða þessi mál til að vita hvað aðrir eru að gera. Hann þakkaði fyrir góðan fund og frambærilegar tillögur hópa.

19.    Næsti aðalfundur, hugmyndir reifaðar um stað og stund.
Leikfélag Hörgdæla býður til fundar í Hörgárdal í Eyjafirði fyrstu helgina í maí 2015.

Formaður þakkar fundarstjórum og öðrum starfsmönnum fundarins fyrir gott starf og fundarmönnum fyrir góðan fund og sleit síðan fundi.

Fundargerð rituðu Magnþóra Kristjánsdóttir og Anna María Hjálmarsdóttir.