Einleikjahátíðin Act alone verður haldin í sjávarþorpinu Suðureyri dagana 5. – 8. ágúst. Boðið verður uppá einstaka dagskrá fyrir alla aldurshópa og rúsínan í pysluendanum er að það er frítt á hátíðina. Já, frítt á alla þá 21 viðburð sem verður í boði á Act alone 2015. Act alone var fyrst haldin árið 2004 á Ísafirði en árið 2012 flutti hátíðin búferlum til Suðureyrar. Óhætt er að segja að Act alone hafi tekið margfalt hástökk við þann flutning. Bæði hefur dagskráin margfaldast, þó einstök sé, sem og aðsókn en í fyrra sóttu um 3000 manns hátíðina. Þökk sé bakhjarli hátíðarinnar, Fisherman á Suðureyri, sem og íbúum sem hafa tekið hátíðinni opnum örmum.
Á Act alone 2015 verður boðið uppá allt besta af einleikjaárinu. Allir aldurshópar geta skemmt sér saman þessa einstöku helgi í ágúst. Enda er Act alone fjölskylduhátíð og vissulega er fjölskyldan stór. Boðið verður uppá leiksýningar, tónleika, dans og svo ótalmargt fleira einleikið. Í ár verður einnig hægt að fara ókeypis á Act alone því boðið verður uppá langferðabifreiðaferðir frá Ísafirði í hið einstaka sjávarþorp Suðureyri á Act alone.
Meðal þess sem boðið verður uppá á Act alone 2015 má nefna vinsælasta einleik ársins sjálfan Kenneth Mána. Leikkonan ástsæla Edda Björgvins býður uppá leikinn Húmor er dauðans alvara, Katrín Gunnarsdóttir sýnir dansverkið Saving History, Karl Örvarsson eftirherma bregður sér í ótal gerfi, Þórarinn Eldjárn les úr verkum sínum og tónlistarmennirnir Lára Rúnars og KK verða með einstaka tónleika. Að vanda verður boðið uppá veglega dagskrá fyrir börn. Ævar vísindamaður verður með vísindanámskeið og Ísgerður Gunnarsdóttir verður með leik og söngskemmtun. Einnig verður blöðrulistamaður á staðnum og galdrar fram ýmiskonar blöðrulistaverk. Margt fleira einleikið og einstakt verður í boði á Act alone 2015 má þar nefna innsetninguna Herðing sem mun fara fram í einum af hinum fjölmörgu harðfiskhjöllum sjávarþorpsins. Nánari upplýsingar um Act alone og dagskrá ársins má nálgast á heimsíðu hátíðarinnar www.actalone.net