Hin rótgróna einleikjahátíð Act alone verður haldin á Suðureyri 9. – 12. ágúst. Núna verður mikið einleikið í dansi, söng, leik og mat. Þar má nefna fiskiveislu, tónleika með Valgeiri Guðjónssyni og Svavari Knúti, danssýningar frá Önnu Siggu og Steinunni Ketisdóttur, trúðasýningar fyrir börn og fullorðna, leikverkin Fastur, Náströnd – Skáldið á Þröm, Jón, Svikarinn og Petit.
Einnig verður sýning um leiklist á Vestfjörðum ásamt Warrior jóga og þjóðbúningasýningu. Það kemur sennilega mörgum á óvart en það er frítt á alla viðburði á Act alone. Dagskrá Act alone er á heimasíðu hátíðarinnar www.actalone.net
Act alone leiklistarhátíðin er nú haldin níunda árið í röð en óhætt er að segja að hátíðin sé með flottari listahátíðum landsbyggðarinnar. Hátíðin hefur vaxið og dafnað á einleikin hátt ár frá ári. Segja má að Act alone sé mikið einleikið ævintýri sem kemur ávallt á óvart líkt og ævintýra er háttur. Í vor gerði Act alone samning við Fisherman á Suðureyri sem verður bakhjarl hátíðarinnar næstu fimm árin. Á sama tíma var gerður samingur við leikhópinn Vesturport sem mun á næstu árum aðstoða við að byggja Act alone upp og gera að enn betri hátíð.
Það má búast við einleiknu fjöri á Suðureyri og víst er að hér er að verða vísir að sérstöku einleikjaþorpi.