Gamanleikurinn Á sama tíma að ári verður frumsýndur á Stóra sviði Borgarleikhússins föstudaginn, 28. september. Verkið sem var frumflutt í New York 1975, hefur notið mikilla vinsælda um allan heim og unnið til fjölda verðlauna (þ.á.m. Drama desk verðlaunin sem besta leikrit ársins) sem og kvikmyndin sem gerð var eftir leikritinu (tilnefnd til 4 Óskarsverðlauna). Karl Ágúst Úlfsson þýddi verkið,  Sigurður Sigurjónssons og Bjarni Haukur Þórsson leikstýra Nínu Dögg Filippusdóttur og Guðjóni Davíð Karlssyni í þessu verki Bernards Slade.

Eitt febrúarkvöld árið 1951 hittast George og Doris fyrir tilviljun á hóteli og verja nóttinni saman. Þetta kvöld kviknar neistinn. Stundum þarf ekki nema eina nótt – en stundum er ein nótt ekki nóg. Því endurtekur sagan sig, ár eftir ár eftir ár. Á þessum árvissu fundum finnum við fyrir umróti sögunnar; kvenfrelsisbaráttunni, hippatímanum, Víetnamstríðinu og því hvernig viðhorf þeirra til lífsins breytast. Og lokauppgjörið nálgast!

Verkið sló rækilega í gegn þegar það var frumflutt í New York árið 1975. Það fór sem eldur í sinu um heimsbyggðina og stuttu síðar var gerð kvikmynd sem sömuleiðis naut mikilla vinsælda, hlaut fjölda verðlauna og var m.a. tilnefnt til fernra Óskarsverðlauna. Leikritið var tilnefnt til Tony verðlauna og hlaut Drama Desk verðlaunin sem besta leikrit ársins. Margrét Guðmundsdóttir og Bessi Bjarnason áttu ógleymanlegan leik þegar verkið var sýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1978. Tveimur áratugum síðar, árið 1996, léku þau Tinna Gunnlaugsdóttir og Sigurður Sigurjónsson sama leikinn. Nú eru það svo Guðjón Davíð Karlsson og Nína Dögg Filippusdóttir sem takast á við þessi skemmtilegu hlutverk.

Leikmyndahönnuður er Ásta Ríkharðsdóttir, Stefanía Adolfsdóttir sér um búninga og Þórður Orri Péturssons og Garðar Borgþórsson eru höfundar lýsingar. Tónlistarstjóri er Frank Þórir Hall. Titillag verksins sem sló rækilega í gegn með Nýdönsk á níunda áratugnum hefur verið endurútsett af hljómsveitinni Tilbury.