Hjá Leikfélagi Siglufjarðar standa yfir stífar æfingar á bráðskemmtilegu verki þeirra Eddu Björgvinsdóttur og Hlín Agnarsdóttur, Láttu ekki deigan síga Guðmundur.   Leikurinn gerist árið 1984 og fjallar um ´68 kynslóðina svokölluðu, sigra hennar og vonbrigði á gamansaman hátt.  

Í leikritinu rifjar aðalpersónan, Guðmundur Þór, upp sögu sína þegar sonur hans Garpur Snær leitar ásjár hjá honum eftir að mamma hans hefur hent honum út. Saman fara þeir feðgar í ferðalag um fortíðina þar sem margt ber á góma, og hefst sagan á menntaskólaárum Guðmundar og er stiklað á stóru á fornum kvennavegi Guðmundar allt til ársins 1984. 

L.S hefur fengið góða krafta til liðs við sig við uppsetningu verksins en nemendur í leiklist í Grunnskóla Siglufjarðar voru fengnir til samstarfs ásamt því að Guðjón Sigvaldason leikstjóri var fenginn til að leikstýra herlegheitunum.
Áætlað er að frumsýna verkið í Bíó Café þann 27. október.