Leikfélag Ölfuss: Listin að lifa eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur
Leikstjóri: Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson

Leikfélag Ölfuss frumsýndi síðastliðinn föstudag leikritið Listin að lifa eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur. Leikritið segir frá lífi þriggja vina sem fylgjast að í gegnum lífið frá bernsku til elliára. Vinirnir, Diddi, Dudda og Dúa eiga vonir og þrár eins og flestir og sumar þeirra rætast aðrar ekki.

Það má segja að leikritið sé línuleg frásögn sem hefst í bernsku og endar á elliheimilinu. Vinirnir Diddi, leikinn af Aðalsteini Jóhannssyni, Dudda leikin af Helenu Helgadóttur og Dúa leikin af Erlu Dan Jónsdóttur alast upp í sömu blokk. Leiðir skilja í stuttan tíma en þau hittast svo öll aftur þegar þau eru orðnir stálpaðir unglingar.

Diddi, Dudda og Dúa eru mjög ólíkir einstaklingar. Dúa er prakkarinn í hópnum og er yfirleitt ekkert að velta sér upp úr vandamálunum. Diddi flýtur dálítið með straumnum og Dudda er utanvelta en einkar ábyrg manneskja.

Eins og felst í nafni verksins fjallar það um ástina að lifa en líka um ævilangan ástaþríhyrningin sem sagt er frá í hálfkæringi. Ástin er sjaldnast mjög heit en vel má flokka tilfinningakulda hinnar drykkfelldu og vonlausu Dúu undir raunsæi. Farið hefur fé betra, segir hún þegar þær stöllur sitja saman á elliheimili, aftur komnar með bleyjur og Diddi farinn til sælli heima.

Af leikurunum þremur stendur Erla Dan langfremst og er enda mikill náttúrutalent á leiksviði. Henni tekst óborganlega upp í túlkun á vandræðaunglingi, frillu og eiginkonu. En ekki síður sem vinur þrátt fyrir breyskleikana.

Þau Helena og Aðalsteinn hafa ekki þá reynslu eða meðfæddu leikhæfileika sem Erla býr yfir en komast vel frá sínu hlutverki. Vitaskuld reynir verkið mikið á þar sem aðeins þrír leikarar eru á sviði og yfirleitt öll í senn. Skiptingar eru örar og hlaupið hratt yfir sögu þar sem æviskeið er afgreitt á hálfum öðrum tíma. Hinn metnaðarlausi málfræðingur og ástmaður Diddi er sannfærandi í sínu stykki. Og Helena á mjög athyglisverða og góða kafla þar sem eintal hennar um sálarkröm og einsemd stendur uppúr.

Í heildina er verkið gott, bæði sem skemmtan og lærdómur. Leikritshöfundur skrifar þó um skilnað eins og það sá álíka merkilegt atriði í lífsögunni eins og að skreppa út í búð. Það má velta því fyrir sér hvort að það sé rétt. En kannski er það svo í snöggu endurliti að lífsatburðirnir raðast á keðju og verða langt því frá eins dramatískir í verunni eins og sjá mætti í góðri Hollywoodmynd.
Í lokin má líka segja að vináttan verði ofaná og kannski er það boðskapur verksins að góðir vinir umberi allt og fyrirgefi allt.

Í uppsetningu Leikfélags Ölfuss er leikritið að mestu látið gerast heima í stofu hjá einhverjum vinanna. Stofan er höfð hægra megin á sviðinu frá áhorfendum séð. Þetta virkaði á stundum pínulítið einhæft. Það hefði verið skemmtilegra að sjá betri nýtingu á sviðinu. Í nokkrum atriðum er þetta þó brotið upp en það hefði að mati undirritaðrar mátt gerast aðeins oftar.
Þar sem um nokkuð hraðar skiptingar er að ræða í verkinu er farin sú leið í búningamálum að láta leikararnir klæðast svörtu að neðan og skipta svo um búning að ofan eftir því sem aldurinn færist yfir og tíðarandinn breytist. Er þetta ágætis lausn.

Ljósanotkun er öll mjög einföld og eitt megintónlistarstef tengir saman leikhlutana. Tvö önnur lög eru þó notuð í upphafi og enda til að skerpa á efni verksins.

Í heildina séð er sýningin mjög skemmtileg og mátti heyra áhorfendur á frumsýningu hlæja oft og mikið. Það eru því allir hvattir til að fara að sjá þessa sýningu, því hvernig svo sem allt þetta veltist þá er alltaf gaman að fara í leikhús og hlæja svolítið.

 

Elín Gunnlaugsdóttir