Hugleikur bauð fólki í heimsókn í Iðnó og þar voru allar sortir í boði. Hörður Sigurðarson fór og gæddi sér á veitingunum.
Hvorki meira né minna en „Sjö sortir“ voru á boðstólum þegar undirritaður leit í „heimsókn“ til Hugleiks í Iðnó í gærkvöldi. Sortirnar sjö voru afrakstur námskeiðs sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur þar sem unnið var með sjö einþáttunga eftir jafnmarga Hugleikara og jafnmargir Hugleikarar sem leikstýrðu verkunum. Rúnar Guðbrandsson hafði yfirumsjón með bakstrinum og sá til þess að ekkert brynni við.
Það sem Hugleikur bauð upp á var ekki leiksýning í þeim skilningi og því ekki sanngjarnt að fjalla um það á þeim forsendum. Eins og segir í einblöðungi sem gestir fengu afhentan kjósa þau að kalla þetta frekar heimsókn. Þar að auki átti heimsóknin upphaflega að fara fram í allt öðru rými og þó Iðnó hafi sinn sjarma, hefur rýmið sem hópurinn æfði og ætlaði að sýna í, örugglega hentað forminu mun betur. Það er mjög gott framtak hjá Hugleik að leyfa félagsmönnum að spreyta sig á öðru en þeir flestir fást við að öllu jöfnu í leikstarfinu. Það er allt of lítið um það í íslensku áhugaleikhúsi að gerðar séu tilraunir á borð við þessa þar sem áhugasömu leikhúsfólki gefst tækifæri til að reyna sig í nýjum hlutum. Það sýndi sig líka hér að í röðum Hugleiks er fólk sem hefur fullt erindi í slíka hluti. Það er ekki ætlunin hér að fjalla í smáatriðum um allar sortirnar sem í boði voru. Allar höfðu þær eitthvað til síns ágætis en sumar höfðu þó meira og sterkara eftirbragð.
Heilsteyptustu sviðsetningarnar voru á þáttunum „Í fögrum dal“, „Bið“ og „Dagurinn“. Sá fyrstnefndi er eftir kunnan Hugleikshöfund, Sigrúnu Óskarsdóttur og er í leikstjórn Þorgeir Tryggvasonar. Honum tókst að búa til spennu og forvitni í þætti sem reyndar skildi fólk eftir ögn vonsvikið að fá ekki að vita ögn meira um það sem í gangi var. Þátturinn ku vera skrifaður sem eintal en það var snjöll leið að túlka persónuna með þremur leikurum og gerði það hann eflaust mun líflegri en ella. Einfaldar lausnir í lýsingu voru skemmtilega notaðar til að auka á dulúðina og spennuna.
„Bið“ eftir Þórunni Guðmundsdóttur var skemmtilegur og vel skrifaður þáttur um hversdagslegar aðstæður sem allir þekkja. Það sem lyfti honum upp var þó ekki síst afskaplega næmur og fínn samleikur Rúnars Lund og Hrefnu Friðriksdóttur. Þau bjuggu til skýrar og eftirminnilegar persónur sem gripu mann áður en eitt orð hafði verið sagt. Mjög vel gert.
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir skrifar þáttinn „Dagurinn“ sem fjallar um hinn hinsta dag. Reyndar er þátturinn að mestu leyti eintal en það sem hélt manni föngnum var styrkur leikur Huldu Hákonardóttur og áhrifarík sviðsetning Sesselju Traustadóttur, þar sem ljós og hljóð voru smekklega notuð til að framkalla áhrif. Sigríður Lára er nýjasta vonarljósið í leikritunarvöggu Hugleiks og þáttur hennar er vel skrifaður þó hann fjalli ekki um neitt léttmeti.
Í heildina var leikurinn í þáttunum nokkuð misjafn en það er full ástæða til að minnast sérstaklega á frammistöðu nokkurra leikara. Gísli Björn Heimisson bjó til mjög skemmtilega týpu úr Pétri Mandólín í þættinum „Slá þú hjartans hörpustrengi“. Sama má segja um Björn Thoransen sem minnti einna helst á Bjart í Sumarhúsum á sterum, í hlutverki Úlfljóts í „Sveitasælu“. Einar Þór Einarson var skondinn sem ákafur umhverfisverndarsinni í „Síðasta útilegumanninum“ en stal eiginlega senunni af sjálfum sér með „grand exit“ þegar farið var yfir í næsta þátt. Einnig má nefna Jóhann Hauksson sem var skemmtilegur Geirmundur geðlæknir í samnefndum þætti. Sá þáttur var reyndar sá eini sem hafði óvæntan tvist í lokin sem er þó algengt með stutta þætti á borð við þessa.
Heilt yfir var þetta ánægjuleg heimsókn til Hugleiks og ástæða til að þakka þeim fyrir framtakið og heimboðið. Þar er ekki í kot vísað og víst að þar er alltaf nóg til og meira frammi, eins og konan sagði.
Hörður Sigurðarson