Þann 1. september sl. rann út frestur til að sækja um að fara með íslenska leiksýningu á alþjóðlegu leiklistarhátíðina í Monaco sem haldin verður í ágúst 2017. Tvær umsóknir bárust og skipaði stjórn Bandalagsins því þriggja manna valnefnd sem skilaði af sér þann 10. september.
Niðurstaða nefndarinnar er eftirfarandi:
Valnefnd vegna alþjóðlegrar leiklistarhátíðar í Mónakó árið 2017 hefur komið saman og komist að sameiginlegri niðurstöðu.
Tvö leikfélög sóttu um með leiksýningu á hátíðina:
Leikfélag Hafnarfjarðar með Ubba kóng.
Höfundur: Alfred Jarry
Þýðing: Steingrímur Gauti Kristinsson
Tónlist og söngtextar: Eyvindur Karlsson, Þórarinn Eldjárn og Karl Ágúst Úlfsson
Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir.
Leikfélag Mosfellsbæjar með Mæður Íslands
Höfundar: Leikhópur, leikfélagar og leikstjóri
Leikstjóri: Agnes Wild
Tónlist: Sigrún Harðardóttir
Leikmynd og búningar: Eva Björg Harðardóttir
Valnefnd gaf sér eftirfarandi forsendur:
1. Sýningin er innan tímamarka.
2. Sýningin hentar erlendum áhorfendum. Með því er átt við að hún sé skiljanleg fólki sem ekki skilur málið, sjónræn og byggir ekki á textaskilningi að mestu leyti.
3. Sýningin er almennt séð góður fulltrúi íslenskrar áhugaleiklistar.
Kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að mæla með Ubba kóng sem framlagi Íslands á hátíðina.
Rök valnefndar eru þessi:
Báðar sýningar eru innan tímamarka og báðar mjög frambærilegar.
Við teljum að Mæður Íslands byggir meira á textaskilningi en Ubbi kóngur og að sýningin sé minna sjónræn. Þar hefur Ubbi kóngur vinninginn með sjónarmun. Fyrir utan að vera sjónrænni er verkið sem slíkt þekkt á alþjóðavísu.
Báðar sýningar eru mjög vel unnar og góð dæmi um metnað í íslensku áhugaleikhúsi.
Það að Ubbi kóngur er sjónrænni sýning með vísun í afar þekkt verk sem gefur möguleika á skilningi í alþjóðlegu samhengi. Sýningin er stór, kraftmikil og umfangsmikil þar sem sterkt verk, leikhópur, lýsing og tónlist búa til sterkar myndir til frásagnar. Þetta vegur afar þungt í niðurstöðu valnefndar.
Í valnefnd sátu:
Guðfinna Gunnarsdóttir
Salbjörg Engilbertsdóttir
Þráinn Sigvaldason
Í framhaldinu sendir Bandalag íslenskra umsókn Leikfélag Hafnarfjarðar til Monaco, en sýningin þarf að fara í gegnum annað valferli áður en endanleg niðurstaða fæst og keppir þar við sýningar NEATA landanna sem eiga ákveðinn kvóta sýninga á hátíðinni.
Endanleg úrslit í þessu seinna vali verða kunngjörð í nóvember nk.