Laugardaginn 3. september opnar Borgarleikhúsið allt upp á gátt og býður alla velkomna í heimsókn milli klukkan 13:00 og 16:00. Að venju verða skoðunarferðir um húsið, innlit á æfingar og atriði á Stóra sviðinu. Villi vísindamaður mun kynna dagskrána í forsalnum. Hannes og Smári taka lagið og Lalli töframaður og ofurhetjurnar Óður og Flexa leggja undir sig Litla sviðið.  Einnig eru búningar og hárkollur til sýnis, tæknifikt, og að sjálfsögðu verða vöfflur og kaffi í boði.

Dagskrá vetrarins var nýlega kynnt með útgáfu Borgarleikhúsblaðsins og er leikárið afar fjölbreytt og öllu tjaldað til. Aðsókn í Borgarleikhúsið hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum og er meiri en nokkru sinni fyrr í sögu íslensks leikhúss. Fjöldi kortagesta hefur margfaldast og hafa þeir aldrei verið fleiri.

Á Stóra sviðinu hefst leikurinn í september með ævintýri fyrir alla fjölskylduna, Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason í nýrri leikgerð eftir Berg Þór Ingólfsson.

Þar munu 22 börn fljúga, dansa og syngja sig inn í hjörtu áhorfenda. Um jólin verður sannkölluð veisla þegar einn eftirsóttasti leikstjóri Evrópu um þessar mundir, Yana Ross, setur á svið Sölku Völku í meðförum okkar færustu listamanna. Í mars frumsýnum við svo nýja gamanleikinn Úti að aka í leikstjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar en þar mun reyna verulega á hláturtaugar áhorfenda.

Á Nýja sviðinu einbeitum við okkur að íslenskri leikritun og erlendum samtímaverkum. Sending eftir Bjarna Jónsson verður frumsýnt í september í leikstjórn Mörtu Nordal. Extravaganza eftir leikskáld Borgarleikhússins í ár, Sölku Guðmundsdóttur, verður frumsýnt skömmu síðar í samstarfi við leikhópinn Soðið svið. Ræman er nýtt verk eftir Annie Baker sem hlaut Pulitzer verðlaunin. Í mars frumsýnum við svo á Nýja sviðinu nýtt íslenskt leikrit með söngvum um hina goðsagnakenndu Elly Vilhjálms í samstarfi við Vesturport í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar.

Litla sviðið er að mestu leyti tileinkað frumsköpun og íslenskum verkum í ár. Gamanleikkonurnar Ólafía Hrönn og Halldóra Geirharðsdóttir hefja þar leik þegar þeir Hannes og Smári stíga á svið í október.  Í nóvember frumsýnum við svo verðlaunaverk Ingmars Bergman, Brot úr hjónabandi í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar þar sem hin glæsilegu leikarahjón Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors fara með aðalhlutverkin. Hún pabbi, áleitið verk um mikilvægt efni verður frumsýnt í janúar í samstarfi við leikhópinn Trigger Warning. Þá verðum við með tvær nýjar og rammíslenskar barnasýningar, einleikinn Jólaflækju eftir Berg Þór Ingólfsson og Vísindasýningu Villa í febrúar. Undir vorið gefum við svo lausan tauminn á Litla sviðinu þegar Reykjavíkurdætur mæta á svæðið og sprengja þakið af húsinu.

Vinsælasta sýning síðasta leikárs, MAMMA MIA! mætir að sjálfsögðu aftur á fjalirnar í september og sigurvegari Grímunnar, Njála, sömuleiðis.