OLD BESSASTAÐIR er glænýtt leikrit eftir Sölku Guðmundsdóttur í leikstjórn Mörtu Nordal sem frumsýnt verður í Tjarnarbíói fimmtudaginn 4. febrúar. Leikhópurinn Sokkabandið stendur að sýningunni en hópurinn er þekktur fyrir uppsetningu nýrra verka sem tala beint inn í samtíma okkar. Í félagsskap þriggja grátbroslegra kvenna sem undirbúa róttækar aðgerðir er velt upp spurningum um það sem greinir „okkur“ frá „hinum“, um það að leita skjóls, um tengsl orða og gjörða, löngun manneskjunnar til að vera með – að tilheyra einhverju mengi, sama hvað það kostar. Sumar fórnir eru nefnilega blóðfórnir.
Þrjár konur koma saman til að framkvæma, til að skilgreina sín sameiginlegu grunngildi, til að borða brauð með spægipylsu, til að finna tilganginn, sem fjærst öllum útveggjum. Þær ætla að verða fyrri til. Þær ætla ekki að láta sparka sér niður stigaganginn. Þær eru ekki vont fólk.
Höfundur: Salka Guðmundsdóttir
Leikstjóri: Marta Nordal.
Leikmyndahönnun: Finnur Arnar Arnarsson.
Búningahönnun: Helga Stefánsdóttir.
Tónlist: Högni Egilsson.
Ljósahönnun: Arnar Ingvarsson.
Leikarar: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir.
Salka Guðmundsdóttir er leikskáld og þýðandi. Fyrsta verk hennar, Súldarsker, frumsýndi leikhópurinn Soðið svið í janúar 2011 og hlaut Grímutilnefningu fyrir. Síðan hefur Salka meðal annarra verkefna skrifað leikritin Breaker sem sýnt var í Glasgow, Edinborg og Adelaide, Svona er það þá að vera þögnin í kórnum (Borgarleikhúsið), Hættuför í Huliðsdal sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu (Soðið svið, tilnefning til Grímunnar) og Ljósberarnir (Útvarpsleikhúsið)
Sokkabandið setur upp sýninguna Old Bessastaðir í samstarfi við Tjarnarbíó. Stofnendur leikhópsins eru þær Arndís Hrönn Egilsdóttir og Elma Lísa Gunnarsdóttir leikkonur. Sokkabandið stuðlar að nýsköpun með því að vinna að nýjum íslenskum verkum og setti nú síðast upp verkið Hystory eftir Kristínu Eiríksdóttur í samstarfi við Borgarleikhúsið sem sýnt var á Litla sviðinu árið 2015 og fékk frábærar viðtökur og fjórar tilnefningar til Grímuverðlaunanna.
Nánari upplýsingar er að finna á facebook síðu Sokkabandsins https://www.facebook.com/sokkabandid og facebook viðburðinum um Old Bessastaði https://www.facebook.com/events/1120296001337281/ en miðasala er á www.midi.is
Sýningar:
4. febrúar kl. 20.30 Frumsýning
7. febrúar kl. 20.30
10. febrúar kl. 20.30
14. febrúar kl. 20.30
18. febrúar kl. 20.30