Grýla er reið. Nei, það er víst ekki alveg rétt því Grýla er brjáluð! Það er búið að bora gat í gegnum heimilið hennar og hún var ekki einu sinni beðin um leyfi. Það er allt á floti í hellinum, heiti potturinn hennar míglekur eftir aðförina og því ekki hægt að búa þar lengur. Ekki einu sinni fyrir tröllskessur.

Grýla er heimilislaus. Fótunum hefur verið kippt undan henni. Hún sem hefur vandað sig svo við að viðhalda sínum nýja lífstíl undanfarin ár. Hún er dugleg að mæta í stuðningshópinn sinn ,,Við borðum ekki börn – lengur”, komin með nálgunarbann á Leppalúða, strákarnir duglegir að taka rítalínið sitt og muna oftast eftir því að vera í rauðu sparifötunum á jólunum. Grýla er meira að segja komin á borð númer 10.647 í Candy Crush. NÚNA ER ALLT Í RÚST! Hún er ekki í andlegu jafnvægi og núvitundin er fokin út í veður og vind. Jólin eru erfiðasti tími ársins og þau nálgast óðfluga.

Er Grýla búin að tapa sér? Mun hún byrja að borða börn aftur? Veit hún ekki að Candy Crush er úrelt? Flytur hún í næsta hús við þig? Ertu til í það?

GRÝLA er 317. sviðsetning Leikfélags Akureyrar

Höfundar: Gunnar Gunnsteinsson og Saga Garðarsdóttir
Leikstjóri: Gunnar Gunnsteinsson
Leikmynd og búningar: Íris Eggertsdóttir
Lýsing: Lárus Heiðar Sveinsson
Förðun: Heiðdís Austfjörð
Leikari: Saga Garðarsdóttir

Sýningin er ætluð manneskjum, 6 ára og eldri. Börn undir sex ára aldri eru á eigin ábyrgð.

Sýningar 5. – 6. – 12. og 13. desember kl. 13.oo í Samkomuhúsinu.
Miðaverð er 2.900.

Miðasala hér.