Einn rjúkandi kaffibolli
Leikfélag Ölfuss
Leikstjóri: Don Ellione
Elín Gunnlaugsdóttir rýnir sýningu

Rithöfundur nokkur venur komur sínar á kaffihús og reynir að sækja þar innblástur í skrif sín. Samtöl og uppákomur á kaffihúsinu, sem ber nafnið Einn rjúkandi kaffibolli, rata því mörg hver inn í skrif hans. Þetta er í stórum dráttum efni leikverksins Einn rjúkandi kaffibolli sem Leikfélag Ölfuss hefur sett upp á aflögðum bar í Þorlákshöfn. Verkið er eftir Þorlákshafnarbúann Aðalstein Jóhannsson, en hann leikur jafnframt rithöfundinn í verkinu.
Ekki ganga skrifin beint vel hjá blessuðum höfundinum þó margt skemmtilegt fólk heimsæki kaffihúsið og ber þar að nefna hina stórskemmilegu Elísu sem byrjar sem barfluga í verkinu en fær síðan annað hlutverk eftir því sem verkinu vindur fram. Þá sækja líka kaffihúsið snobbuð hjón, frakkaklæddur maður og ekki má gleyma Guðfinnu gömlu sem sem alla hrellir og þó einkum póstinn. Kaffibarþjónninn og eigandinn Palli stendur svo vaktina og tekur hæfilega mikinn þátt í samræðum gestanna.
Aðrir gestir eru gestum kaffihússins ósýnilegir en áhorfendur verksins verða þó einkar vel við þá varir, en þetta eru persónurnar í sögu rithöfundarins. Persónur þessar spretta fram úr bakhöfði höfundarins sem er lítið svæði staðsett beint fyrir aftan sæti hans og aðgreint frá aðalsviðinu með hvítu tjaldi.
Það má segja að þessar ímynduðu persónur snúi á súrrealískan hátt út úr orðum hinna raunverulegu gesta. Á stundum er þó erfitt að greina á milli raunverulegra persóna og ímyndaðra. Texti hinna ímynduðu eru oft ískrandi fyndinn og mikið er um orðaleiki í öllum texta verksins. Þá eru hinar ímynduðu persónur á allan hátt mun litskrúðugri í orðsins fyllstu merkingu og þannig á áhorfandinn auðveldara með að greina á milli þeirra og hinna raunverulegu gesta.
Af þessu má sjá að sýningin er einkar lítrík og fyndin. Þó verður að segjast eins og er að hún fór pínulítið hægt af stað. Það var frekar lítið að gera á kaffihúsinu í upphafi verksins og ekki laust við að það setti að manni smá leiða sem hvarf þó um leið og sýningin fór af stað fyrir alvöru.
Um miðbik verksins kemur skemmtileg sena þar sem gestir koma og fara og leikur tónlistin stórt hlutverk í þeirri senu. Svipaða senu hefði mátt gera í upphafi verksins og það hefði þá líka tengt þessa tvo hluta saman. Einhver slík sena hefði lífgað uppá upphafssenurnar. Engu að síðu er verkið ákaflega skemmtilegt og ljóst að Aðalsteinn Jóhannsson er með mikið og gott ímyndunarafl.
Leikararnir skila sínu líka mjög vel. Mest gustar af Ástu Margréti Grétarsdóttur í hlutverki Elísu. Aðalsteinn Jóhannsson er sannfærandi í hlutverki sínu sem örvæntingafullur rithöfundur. Ingólfur Arnarson var pínulítið lengi í gang í hlutverki sínu sem Palli kaffibarþjónn en sækir mjög í sig veðrið eftir því sem líður á sýninguna. Í minni hlutverkum erum Helena Helgadóttir sem á eftirminnilega innkomu sem Guðfinna og Árný Leifsdóttir er frábær í hlutverki Kalla. Annars er leikhópurinn sé mjög jafn og í stöðugri framför, en undirrituð hefur séð nokkuð margar sýningar með félaginu á undanförnum fimm árum. Leikhópurinn núna er miklu þettari og jafnari en fyrir fimm árum síðan.
Leikverkið er eins og áður sagði sett upp á aflögðum bar og má segja að leikmyndin geti vart orðið betri. Áhorfendur sitja við borð og geta sötrað þar sína drykki meðan á leiksýningunni stendur og verða þannig óbeinir þátttakendur í verkinu.
Tónlistin sem notuðu er í sýningunni hefur yfir sér blæ suðrænnar kaffihúsatónlistar og hæfir hún verkinu vel. Það hefði jafnvel mátt nota hana aðeins meira eins og t.d. í upphafi sýningarinnar. Ljós eru sparlega notuð og helst að maður verði þar var við mörk dags og nætur.
Leikskráin er ágætlega úr garði gerð og hún inniheldur allar helstu upplýsingar sem áhorfendur þurfa á að halda. Það er líka skemmtileg mynd á forsíðunni. Helst mætti finna að einstöku prentvillu í skránni.
Í heildina er því hægt að fullyrða að hér hafi verið vandað til allra verka og er óhætt að óska höfundi og leikstjóranum Don Ellione til hamingju með sýninguna.
Enn eru einhverjar sýningar eftir og eru allir hvattir alla til að sjá hana og fagna um leið 10 ára afmæli Leikfélags Ölfuss.
Elín Gunnlaugsdóttir