Ævintýraóperan Baldursbrá eftir Gunnstein Ólafsson og Böðvar Guðmundsson verður frumflutt á sviði í Norðurljósasal í Hörpu laugardaginn 29. ágúst 2015 og er miðasala hafin

Hér er um tónleikauppfærslu að ræða. Tónlistin byggir að hluta á íslenskum þjóðlögum, bæði rímnalögum og þulum, en þar bregður einnig fyrir rappi og fjörlegum dönsum. Söngvarar eru Fjóla Nikulásardóttir sópran í hlutverki Baldursbrár, Eyjólfur Eyjólfsson tenór syngur Spóa, Jón Svavar Jósefsson baritón er Rebbi, Davíð Ólafsson bassi syngur Hrútinn og níu börn eru í hlutverki yrðlinganna. 18 manna kammersveit leikur en stjórnandi er Gunnsteinn Ólafsson.

Óperan segir frá Baldursbrá sem kynnist sposkum Spóa. Þau ákveða að fara saman upp á fjallstind til þess að njóta útsýnisins en það reynist ekki einfalt mál. Þau fá Rebba til að grafa blómið upp og flytja það á efstu eggjar en þar vofir mikil hætta yfir. Næðingur og kuldi gera blóminu lífið leitt auk þess sem stórhættulegur hrútur eigrar þar um í leit að æti. Yrðlingar Rebba vilja ólmir sýna að þeir séu orðnir fullorðnir og hyggjast fella hrútinn en hann er þeim sýnd veiði en ekki gefin. Dýrin hyggjast bjarga Baldursbrá og flytja Baldursbrá heim í gömlu lautuna sýna en svarta þoka og eðlislæg misklíð þeirra á milli virðist ætla að koma í veg fyrir að blómið lifi ferðalagið af.

Baldursbrá var flutt á tvennum tónleikum sumarið 2014 og var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna, fyrst íslenskra barnasöngleikja. Jónas Sen, gagnrýnandi Fréttablaðsins, sagði í umsögn sinni um tónleikana að  Baldursbrá væri tilkomumikil barnaópera, tónlistin og textinn lífleg og flutningurinn kröftugur. Hann bætti síðan við að tónlistin væri alþýðleg og grípandi. Sýningin er samstarfsverkefni Litla óperukompanísins, Íslensku óperunnar og Hörpu.

Miðasala er á www.harpa.is og í síma 5285050. Aðgangseyrir er kr 2.500

Frumsýning laugardaginn 29. ágúst kl. 14

2. sýning sunnudaginn 30. ágúst kl. 14

3. sýning mánudaginn 31. ágúst kl. 20

4. sýning þriðjudaginn 1. sept kl. 20