Fimmtudaginn 27. og sunnudaginn 30. apríl verður Hugleikur með sitt mánaðarlega prógramm í Þjóðleikhúskjallararnum. Í þetta skiptið er aðeins eitt verk á dagskrá en það er leikrit í tveimur þáttum er nefnist Lán í óláni og er eftir Hrefnu Friðriksdóttur. Leikstjórar eru Sigurður H. Pálsson og Rúnar Lund.
Fimmtudaginn 27. og sunnudaginn 30. apríl verður Hugleikur með sitt mánaðarlega prógramm í Þjóðleikhúskjallararnum. Í þetta skiptið er aðeins eitt verk á dagskrá en það er leikrit í tveimur þáttum er nefnist Lán í óláni og er eftir Hrefnu Friðriksdóttur.
Lán í óláni er eilítið fjarstæðukenndur gamanleikur, ekki alveg laus við alvarlegri undirtón. Bergþóra er safnvörður af hugsjón. Hún leggur allt sitt í að sinna þörfum lánþeganna. Starf hennar verður þó vandasamt þegar hagsmunir lánþega fara að rekast á, auk þess sem hún þarf að glíma við þá sem draga það að skila safnefninu. Þá vaknar líka spurningin um það hvað er ekta og hvað ekki. Er raunveruleikinn það raunverulegasta sem stendur til boða?
Leikstjórar eru Sigurður H. Pálsson og Rúnar Lund en Rúnar fer jafnframt með hlutverk í leikritinu. Aðrir leikarar eru Eydís Þórunn Sigurðardóttir, Einar Þór Einarsson, Jenný Lára Arnórsdóttir, Jón Geir Jóhannsson, Nína Björk Jónsdóttir, Sigríður Helgadóttir, Ásta Gísladóttir og Ármann Guðmundsson.
Hugleikur hefur í vetur verið með mánaðarlega dagskrá í Þjóðleikhúsinu og hafa þær sýnt þverskurð af því sem hugleikarar fást við utan þess að setja upp heils kvölds sýningar. Síðasta Þetta mánaðarlega-dagskrá vetrarins verður í maí og er ætlunin að leyfa þar tónlistarfólki félagsins að blómstra og renna á skeiði í gegnum tónlistarsögu Hugleiks en á annað hundrað laga hefur verið samið fyrir leikrit félagsins.
Sýningin hefst kl. 21:00. Miðaverð er 1.000 kr. og hægt er að panta miða á www.hugleikur.is