Freyvangsleikhúsið frumsýndi Kardimommubæinn í Freyvangi þann 25 febrúar sl. fyrir fullu húsi og Eyjafjörðurinn skartaði sínu fegursta; svona eins og til að vera með í tímalausu, sólríku umhverfi Kardimommubæjarins. Sesselja Traustadóttir var á staðnum.
Leikstjórinn, Sunna Borg, velur sígilda leið að Kardimommubænum sem flestir kannast líklega best við af áralangri hlustun á útgáfu Þjóðleikhússins á verkinu. Sunna Borg opnar okkur bæinn með markaðstorg fyrir miðju sviðinu. Þar er bakarinn, pylsugerðarmaðurinn, hús Soffíu frænku sýnileg og dýrasalinn heldur til í ósýnilegu bakhúsi. Þarna er sporvagninn á sínu spori og bæjarvitringurinn Tóbías heldur til í turninum og segir til um veðrið. Bastían bæjarfógeti snattar um bæinn, heilsar upp á menn og málleysingja og leysir úr hversdagslegum vanda samferðamanna sinna. Passlega rólegur yfir því sem þyrfti að færa til betri vegar og notar hið ótrúlega meinlausa ljón ítrekað sem yfirvarp til að þurfa ekki að mæta örlögum neðanmálspiltanna Kaspers, Jaspers og Jónatans. Afskaplega hlý og notaleg túlkun. Allt er einhvern veginn alveg eins og það á að vera. Eða eins og ég er búin að hlusta á disk Þjóðleikhússins með börnunum mínum í mörg herrans ár. Meira að segja kom fyrir að mér fannst sjálfur Róbert Arnfinnsson vera mættur í gervi Guðjóns Ólafssonar að leika Bastían bæjarfógeta en aðeins eitt augnablik. Guðjón fór afskaplega vel með sitt hlutverk, sýndi því alúð og hlýju og var trúr í sinni túlkun.
Soffía frænka, hið óttalega hörkukvendi, vakti ugg samferðarmanna sinna sem þó leituðu óspart ráða hjá henni og höfðu með í ráðum um allt og ekkert. Soffía er með alskemmtilegustu persónum þessa verks og var helst að ég saknaði þess af hálfu höfundar að skrifa hana ekki meira inn í verkið. Túlkun Hjördísar Pálmadóttur var sannfærandi út frá þessari klassísku lögn og hefði seint farið að þreyta okkur, þótt við hefðum fengið miklu meira af henni.
Það hlýtur að vera draumahlutverk sérhvers gamanleikara að fá að vera einn af ræningjunum í Kardimommubænum. Þetta eru hrein trúðshlutverk og svigrúm fyrir óendanleg uppátæki leikaranna. Þeir Jónsteinn Aðalsteinsson, Ingólfur Þórsson og Stefán Guðlaugsson fóru allir vel með sín hlutverk og áttu oft frábæra spretti.
Persónulega finnst mér skemmtilegast í leikhúsi á góðum barnasýningum. Sjaldan fæ ég of mikið af uppátækjum leikaranna í stóru sem smáu sem hægt er að hlaða utan á eina sýningu. Þegar þeir sem eru á sviðinu gera ekki annað en að skemmta mér, þá kætist ég. Því vil ég þakka sérstaklega asnanum, sem leikinn er af Jóhanni Ingólfssyni, fyrir að spinna svona margt í kringum sitt hlutverk.
Tónlistin í sýningunni er undir styrkri stjórn Ingólfs Jóhannssonar. Útsetningar voru klassískar og mikið var gaman þegar Ingólfur jassaði lögin upp á píanóinu. Söngvar voru í góðu lagi og Rósa Björg fær eina rós fyrir fagran söng vagnstjórans Sívertsen. Á frumsýningunni fór Guðný Ósk með hlutverk Kamillu og söng lagið hennar prýðilega.
Sýningin er stór og mikil og margt um manninn. Það koma um 30 manns fram í henni og 5 manna hljómsveit. Nokkrir leikarar fara með hlutverk fleiri en einnar persónu. Kórinn var allur hinn ágætasti og frammistaða barnanna öguð og til fyrirmyndar á sviðinu. Kvikk og lifandi og með á nótunum yfir því sem var að gerast á sviðinu. Á frumsýningunni var enn svolítið seigt á skiptingum en það hlýtur að lagast.
Freyvangsleikhúsið fékk Þorstein Sigurbergsson frá Hornafirði til þess að ljósahanna sýninguna. Hann sýndi það enn og sannaði að hann kann sitt verk. Lýsingin vann vel með fallega hannaðri leikmynd Hallmundar Kristmundssonar og mildir litir sýningarinnar römmuðu sýninguna saman í ljúfa barnaleikhúsmynd.
Ég óska Freyvangsleikhúsinu til hamingju með sýninguna. Hún er stór og falleg og margt vel unnið. Til hamingju með að njóta góðs svo kraftmikils leikhóps og tónlistarmanna. Öll umgjörð sýningarinnar er til fyrirmyndar; leikmynd, lýsing, búningar, förðun, leikskrá og góðar sjónlínur í leikhúsinu ykkar. Leikstjórnin er prýðileg enda í mörg horn að líta í þessari fjölmennu sýningu. Börnin sem fylgdu mér í leikhúsið skemmtu sér vel og sjálfri fannst mér sýningin prýðileg. Það hefði mátt krydda svolítið á nokkrum stöðum en ræningjarnir, asninn, Soffía frænka, Bastían bæjarfógeti og hinir íbúarnir í Kardimommubæ gerðu okkur glaðan og skemmtilegan dag. Takk fyrir það.
Sesselja Traustadóttir