Stúdentaleikhúsið er nú að æfa nýtt leikrit sem frumsýnt verður 2. apríl í Loftkastalanum. Víkingur Kristjánsson hefur verið fenginn til að leikstýra hópnum að þessu sinni, og er verkið samið af leikhópnum í samvinnu við hann.
Víkingur hefur getið sér gott orð á undanförnum árum, og þá sérstaklega í Vesturporti, þar sem hann hefur meðal annars leikið í Rómeó og Júlíu og Woyzeck, auk margra annarra. Hann hefur einu sinni áður leikstýrt Stúdentaleikhúsinu, árið 2002 í Púðurtunnunni. Eins og áður sagði er leikritið frumsamið af leikhópnum, en efni þess verður ekki gefið upp að svo stöddu. Leikhópurinn er stór að venju, og telur um 25 manns í það heila, og má því búast við stórri og kröftugri sýningu.