ImageÞann 25. febrúar næstkomandi verður frumsýnt í Freyvangi leikverkið Kardemommubærinn. Þetta þekkta leikrit kannast flestir ef ekki allir við og persónurnar, er Torbjörn Egner skapaði af sinni alkunnu snilld, eru góðkunningjar barna jafnt sem fullorðinna um heim allan.

Mikill metnaður hefur verið lagður í sýninguna.  Svo umfangsmikil er hún að saumar og smíðar voru færðar út fyrir Freyvang vegna umfangs.  Hefur því verið unnið að sýningunni á þremur stöðum í sveitinni.  Sviðsmynd, hönnuð af Hallmundi Kristinssyni, er sennilega sú viðamesta sem sett hefur verið upp í Freyvangi. Smíðar, undir leiðsögn Halldórs Sigurgeirssonar, tóku rúman mánuð og þurfti tug fílefldra karlmanna bara til þess að koma turni Tobíasar inn í húsið.

Margir gamalgrónir Freyvangsleikarar vekja persónurnar til lífsins.  Ræningjana túlka Stefán Guðlaugsson, sem leikið hefur í fjöldamörgum sýningum í Freyvangi, Ingólfur Þórsson, sem lengi hefur verið viðloðinn áhugaleikhús víðs vegar um landið, og Jónsteinn Aðalsteinsson, sem er að leika í Kardemommubænum í þriðja sinn á ferlinum. Með hlutverk Soffíu frænku fer Hjördís Pálmadóttir, þess má geta að við undirbúning sýningarinnar var sérstaklega leitað til hennar enda þótti engin önnur koma til greina í hlutverkið. Í hlutverki Bastíans er Guðjón Ólafsson, en hann leikstýrði einmitt Kardemommubænum hjá Litla leikklúbbnum á Ísafirði á sínum tíma.

Margir leikarar eru þó af yngri kynslóðinni og margt upprennandi leikhúsfólk þar á ferð. Jóhann Ingólfsson og Gunnar Örn Stephensen, sem léku báðir stór hlutverk í Ólíver, sýna þrátt fyrir ungan aldur sanna þrautseigju áhugaleikara, og vinda sér beint í Kardemommubæinn í kjölfar góðrar frammistöðu í hinni vinsælu sýningu Leikfélags Akureyrar. Þá leikur systir Jóhanns, Katrín Þöll, einnig í verkinu. Ekki eiga þau langt að sækja áhugann. Faðir Jóhanns og Katrínar, Ingólfur Jóhannsson, er tónlistarstjóri og faðir Gunnars, Eiríkur Stephensen, skólastjóri Tónlistarskóla Eyjafjarðar, hefur staðið að þjálfun hljómsveitar.

Um leikstjórn verksins sér Sunna Borg, en þó að hún sé þekktari sem þrautreynd leikkona hefur hún fengist þó nokkuð við leikstjórn og er þetta í annað sinn sem hún leikstýrir Kardemommubænum. Um hönnun lýsingar sér Þorsteinn Sigurbergsson frá Hornafirði, góðkunningi Freyvangsleikhússins og annarra áhugaleikfélaga.

Fyrstu sýningar eru sem hér segir:
Frumsýning 25. febrúar kl. 16:00 UPPSELT
Önnur sýning 26. febrúar kl. 15:00 UPPSELT
Þriðja sýning 4. mars kl. 15:00
Fjórða sýning 5 mars kl. 15:00

Miðapantanir eru í síma 463 1392 eftir kl. 16:00.  Nýjustu upplýsingar eru ætíð til staðar á www.freyvangur.net, heimasíðu Freyvangsleikhússins.