Þjóðleikhúsið frumsýnir þann 12. mars í Kassanum nýtt leikrit eftir Sigurð Pálsson í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur.
Ung kona áttar sig á því að það sér hana enginn í erfidrykkju eiginmannsins sem drap sig úr dugnaði. Hún hefur alltaf verið bakhliðin á eiginmanninum og veit ekki lengur hver hún er.Þegar hún ráfar út úr erfidrykkjunni finnur hún að hún hefur heldur ekkert aðdráttarafl lengur. Það sem meira er – vegfarendum finnst hún beinlínis fráhrindandi, öllum nema draumlyndum ungum manni sem dregst að henni eins og naglapakki að segulstáli. Nokkrum mánuðum síðar, eftir aðra sára lífsreynslu, reikar hún svefnlaus um miðborgina og nýtur stuðnings tveggja kvenna, Næturinnar og Rigningarinnar. Fjórar götur í gömlu Reykjavík toga hana stöðugt til sín en þar virðist fortíð hennar búa.
Sigurður Pálsson hefur sent frá sér fjölmörg leikrit af ólíkum toga og hikar ekki við að halda með áhorfendur á vit hins óvænta. Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri, Gretar Reynisson leikmyndahöfundur og Sigurður Pálsson sameinuðu síðast krafta sína hér í Þjóðleikhúsinu í hinni rómuðu sýningu Utan gátta sem hlaut sex Grímuverðlaun, meðal annars fyrir sýningu, leikstjórn, leikmynd og leikrit ársins.
Í sýningunni leika Elma Stefanía Ágústsdóttir, Lilja Nótt Þórarinsdóttir, Svandís Dóra Einarsdóttir, Snorri Engilbertsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Eggert Þorleifsson.
Úlfur Eldjárn semur tónlist, búninga gerir Þórunn María Jónsdóttir og Halldór Örn Óskarsson og Magnús Arnar Sigurðarson hanna lýsingu.