Borgarleikhúsið fetar í forspor erlendra leikhúsa með því að sinna enskumælandi áhorfendum með textuðum sýningum. Þriðjudaginn 11. nóv verður sýningin Bláskjár þýddur á enskan texta sem varpað verður á vegg leikmyndar.

Bláskjár Tyrfing Tyrfingssonar var frumsýnt á síðasta leikári og hefur sannarlega slegið í gegn því margar aukasýningar hafa bæst við. Bláskjár er íslenskt gamandrama, með súrum keim, og fjallar um einlæga löngun tveggja systkina í Kópavogi (skammt frá Hamraborg) til að endurnýta sig og byrja lífið upp á nýtt.

Tyrfingur er eitt efnilegasta leikáld okkar tíma. Hann gegnir í ár stöðu leikskálds Borgarleikhússins, en forverar hans í því starfi eru þau Auður Jónsdóttir, Jón Gnarr og Kristín Marja Baldursdóttir. Tyrfingur hefur áður skrifað Grande og Skúrinn á sléttunni, einn þriggja einþáttunga ungra leikskálda sem sýndir voru í Borgarleikhúsinu síðastliði vor undir samheitinu NÚNA! Fyrir þessi verk sín hlaut hann tvöfalda tilnefningu til Grímunnar, íslensku sviðlistaverðlaunanna vorið 2013. Bláskjár er fyrsta leikrit hans í fullri lengd. Vignir Rafn Valþórsson leikstýrir Bláskjá, en hann hefur getið sér gott orð fyrir sýningarnar Munaðarlaus, Lúkas og Refinn sem sýndur var í Borgarleikhúsinu í haust. Högni Egilsson semur tónlistina í verkinu, Brynja Björnsdóttir hannar leikmynd og búninga og Garðar Borgþórsson lýsingu. Leikarar sýningarinnar eru þau Arndís Hrönn Egilsdóttir, Arnmundur Ernst Björnsson, Hjörtur Jóhann Jónsson.

Sagan Pabbi er loksins dauður. Systkinin Valter og Ella ætla sér flytja upp úr kjallaranum þar sem þau hafa kúldrast árum saman, en á efri hæðum hússins bjó faðir þeirra og upphaldsbarnið Eiríkur. Þau binda miklar vonir við flutningana því nú ættu draumar þeirra systkina um frægðarferil á sviði skvísubóka og ástarsamband við leigubílstjóra að geta ræst. En fyrst þarf að koma pabba gamla í gröfina og losa sig við uppáhaldsbarnið, helst fyrir fullt og allt. Valter og Ella eru fyrst og fremst Íslendingar sem mala um breytingar og betri tíð og reyna að endurnýta sig eftir undarlegustu leiðum. 

Verkið Bláskjár er íslenskt gamandrama, með súrum keim, og fjallar um einlæga löngun tveggja systkina í Kópavogi (skammt frá Hamraborg) til að endurnýta sig og byrja lífið upp á nýtt. Reyndar fjallar það um sitthvað fleira, til dæmis feðraveldið, grimmdina, ofbeldið og veikburða getu okkar til þess að segja hvert öðru satt – og svo auðvitað Bláskjá og sígaunana.

Tyrfingur Tyrfingsson (f. 1987) hefur fengist við leiklist svo lengi sem hann man eftir sér og hefur þar til 2012  fyrst og fremst einbeitt sér að performans listum. Hann nam „fræði og framkvæmd“ við leiklistardeild Listaháskóla Íslands og lauk þaðan BA-prófi vorið 2011, en stundaði síðan nám í leikritun við Goldsmiths, University of London. Hann hefur áður skrifað Grande og Skúrinn á sléttunni, einn þriggja einþáttunga ungra leikskálda sem sýndir voru í Borgarleikhúsinu síðastliði vor undir samheitinu NÚNA! Fyrir verk sín hlaut Tyrfingur tvöfalda tilnefningu til Grímunnar, íslensku sviðlistaverðlaunanna vorið 2013. Bláskjár er fyrsta leikrit hans í fullri lengd.

Aðstandendur Höfundur: Tyrfingur Tyrfingsson | Leikstjórn: Vignir Rafn Valþórsson | Aðstoðarleikstjóri: Pétur Ármannsson Aðstoðarmaður leikstjóra: Viktoría Blöndal|Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir | Tónlist: Högni Egilsson | Lýsing og hljóð: Garðar Borgþórsson | Leikgervi: Árdís Bjarnþórsdóttir  Leikarar: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Arnmundur Ernst Björnsson, Hjörtur Jóhann Jónsson