Leikfélagið Baldur á Bíldudal vaknar úr nokkurra ára dvala núna á laugardag. Þá mun félagið frumsýna ameríska stykkið Rommí. Í aðalhlutverkum eru tveir af burðarásum félagsins í gegnum árin Hannes Friðriksson og Þuríður Sigurmundsdóttir. Bæði hafa þau starfað ötulega með félaginu síðustu áratugi. Hér er á ferðinni bráðhress gamanleikur en þó með alvarlegum undirtón.

Leikstjóri verksins er Bílddælingurinn Elfar Logi Hannesson og er þetta í fyrsta sinn sem hann leikstýrir hjá félaginu. Gaman er að geta þess að hann hóf einmitt feril sinn með leikfélaginu Baldri í Félagsheimilinu Baldurshaga þar sem frumsýningin á Rommí fer fram.

Rommí er eftir bandaríska leikskáldið D. L. Coburn og hefur notið mikilla vinsælda allt frá því það var frumflutt í lok áttunda áratugs síðustu aldar. Leikurinn gerist á ónefndu dvalarheimili þar sem við hittum fyrir Weller Martin og Fonsiu Dorsey. Þau hafa verið á þessu dvalarheimili í mislangan tíma. Þegar þau hittast fyrst verður það úr að þau stytta sér stundir með því að spila hið vinsæla spil rommí. Eftir því sem spilaumferðunum fjölgar fara þau að kynnast betur og um leið tekur samtal þeirra að þróast og vinda uppá sig. Má segja að úr verði mannleg spilaborg þar sem allt getur gerst.

Rommí var fyrst sýnt hér á landi árið 1980 hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Gaman er að segja frá því að Vestfirðingar voru einmitt í hlutverkunum tveimur. Stórleikararnir Gísli Halldórsson og Sigríður Hagalín sem bæði voru að vestan.

Einsog fyrr gat þá verður Rommí frumsýnt í Baldurshaga á Bíldudal núna á laugardag 18. október kl. 20. Önnur sýning verður á fimmtudaginn 23. október einnig kl. 20. Miðaverð á sýninguna er 2.500.- kr og rétt er að taka fram að það er ekki posi á staðnum.