Einleikjahátíðin Act alone verður haldin í sjávarþorpinu Suðureyri dagana 6. – 10. ágúst. Dagskráin er sérlega fjölbreytt og einleikin. Alls verður boðið uppá 20 einleikna viðburði eitthvað fyrir alla konur og kalla eða bara frá 2ja til 102ja ára. Aðgangur að öllum viðburðum Act alone er ókeypis og öllum opin.

Act alone var fyrst haldin árið 2004 og hefur verið haldin árlega síðan. Alls hafa verið sýndir yfir 100 verk á hátíðinni og ávallt hefur aðgangur verið ókeypis að öllum viðburðum.

Meðal einleikja sem verða sýndir á Act alone í ár má nefna Eldklerkinn með Pétri Eggerz, Grande með Hirti Jóhanni Jónssyni, Sveinsstykki Þorvaldar Þorsteinssonar í flutningi Arnars Jónssonar og barnaleikritið Pétur og úlfinn með Bernd Ogrodnik.

Það verður einnig dansað á Act alone. Saga Sigurðardóttir frumflytur nýtt dansverk og Anna Richardsdóttir ætlar að taka Suðureyri í gegn með einstökum þrifagjörningi.

Tónlistin á einnig sína fulltrúa á Act alone. Stuðmaðurinn Egill Ólafsson gerir upp ferilinn í tali og tónum og gítarsnillingurinn Björn Thoroddsen verður í essinu sínu með hljóðfærið.

Síðast en ekki síst verður Villi vísindamaður með vísindanámskeið fyrir krakka á öllum aldri.

Tvær nýjungar eru á Act alone í ár. Í fyrsta sinn verður boðið uppá einstaka myndlist og ritlist. Opnuð verður sýning á verkum Eddu Heiðrúnar Backman, leikkonu, sem sannarlega hefur farið sínar eigin leiðir í listinni. Fulltrúar ritlistarinnar eru Eiríkur Örn Norðdahl og Ólína Þorvarðardóttir sem munu lesa uppúr verkum sínum og annarra.