Unglingadeild Leikfélags Ölfuss hefur síðan í mars æft nýtt leikverk sem nefnist Loki Laufeyjarson og er eftir þau Gísla Björn Heimisson, Guðmund Lúðvík Þorvaldsson og Guðrúnu Sóleyju Sigurðardóttur. Leikstjóri er Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson en hann leikstýrði uppsetningu félagsins í haust á leikritinu Makalausri sambúð eftir Neil Simon.
Frumsýnt verður í Versölum mánudaginn 26. maí kl. 18:00 og 2. sýning verður miðvikudaginn 28. maí kl. 20:00. Aðeins er um þessar tvær sýningar að ræða. Miðaverð er kr. 500 og verða miðar seldir við innganginn.
Upphaflega var farið af stað með námskeið fyrir unglinga og hófst það um það leyti sem verkfall framhaldsskólakennara skall á og þróaðist fljótlega út í æfingar á þessu skemmtilega verki. Sjö vaskir leikarar leika í sýningunni og byggir hún á gamansaman hátt á goðsögunum úr Snorra-Eddu. Leikarar eru þau Axel Bergmann Sigurðarson, Hákon Svavarsson, Jenný Karen Aðalsteinsdóttir, Lilja Margrét Sigurðardóttir, Magnús Páll Haraldsson, Snæfríður Sól Árnadóttir og Sævar Berg Björnsson. Það er gaman að sjá efniviðinn sem býr í þessum ungu leikurum og verður skemmtilegt að sjá þau á sviði með Leikfélagi Ölfuss í framtíðinni.