Föstudaginn 21. mars frumsýnir Borgarleikhúsið Ferjuna á Litla sviðinu, glænýtt íslenskt verk eftir einn ástsælasta höfund þjóðarinnar Kristínu Marju Baldursdóttur. Verkið fjallar um fimm íslenskar konur og þrjá karla sem stödd eru erlendis og neyðast til að sigla saman heim til Íslands í ryðguðum dalli. Þá hefst baráttan fyrir því að finna leiðina heim, hið ytra sem innra – að finna sjálf sig og komast á leiðarenda.

Sagan: Fimm íslenskar konur og þrír karlar eru stödd erlendis. Allt þetta fólk á brýnt erindi til Íslands en þar sem flugsamgöngur liggja niðri sökum eldgoss neyðast þau til að sigla heim með ryðguðum dalli sem er í sinni síðustu ferð. Þegar fólkið kemur um borð kemur í ljós að ýmislegt er öðruvísi en búist var við. Konunum er troðið saman í litla káetu á meðan karlmennirnir fá aðstöðu á rúmgóðum bar þar sem þeir spila tónlist og skemmta sér. Eftir nokkrar vangaveltur ákveða konurnar að taka málin í sínar hendur. Óvænt atburðarás er í uppsiglingu.

Verkið: Kristín Marja Baldursdóttir hefur verið í hópi vinsælustu rithöfunda landsins undanfarna áratugi. Meðal hennar þekktustu og vinsælustu verka eru Karítas án titils, Óreiða á striga, Mávahlátur og Hús úr húsi. Hún var leikskáld Borgarleikhússins á síðasta leikári. Hér er fyrsta leikverk Kristínar á ferðinni.
Kristín Eysteinsdóttir leikstýrir hér einvala liði leikara. Hún er nýskipaður Borgarleikhússtjóri og hefur leikstýrt fjölda verka við góðan orðstír, s.s. Svar við bréfi Helgu og Fólkið í kjallaranum.

Aðstandendur:
Höfundur: Kristín Marja Baldursdóttir | Leikstjórn: Kristín Eysteinsdóttir | Leikmynd: Vytautas Narbutas | Búningar: Stefanía Adolfsdóttir | Tónlist: Hallur Ingólfsson | Lýsing: Þórður Orri Pétursson| Hljóð: Baldvin Magnússon | Leikgervi: Árdís Bjarnþórsdóttir
Leikarar: Hildur Berglind Arndal, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Halldór Gylfason, Guðjón Davíð Karlsson, Hilmar Guðjónsson, Birgitta Birgisdóttir, Anna Kristín Arngrímsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir