Leikfélag Selfoss
Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren
Leikstjóri Sigrún Valbergsdóttir 

Með hækkandi sól og umbrotum í samfélaginu hefur Leikfélag Selfoss unnið enn eitt þrekvirkið og nú með boðskap um hugrekki og samábyrgð.  Félagið hefur fært margar athyglisverðar og flottar sýningar á fjalir sínar í gegnum tíðina og sinnt  öllum aldurshópum.  Nú er það Astrid Lindgren sem leggur til söguna um bræðurna Karl og Jónatan Ljónshjarta og skemmst er frá því að segja að úr verður mjög góð leiksýning þar sem allir þættir vinna vel saman.

 

Sigrún Valbergsdóttir er vinsæll og þrautreyndur leikstjóri og fengur fyrir Selfyssinga að fá hana.  Hún hefur skapað sterka og áhrifamikla heildarmynd á litlu sviðinu í leikhúsinu við Sigtún þar sem góður leikur og söngur, flott frumsamin tónlist og lifandi hljóðfæraleikur, hljóðmynd, ævinýraleg en hentug leikmynd, mjög sannfærandi búningar og mögnuð lýsing er allt í góðu jafnvægi.  Á fyrstu mínútum leiksins er áhorfandinn heillaður inn í heiminn sem Astrid Lindgren skapaði svo fallega og æsilega í skáldsögunni Bróðir minn Ljónshjarta. Bókin kom fyrst út hér á landi 1976. Þeir sem hafa lesið söguna í þýðingu Þorleifs Haukssonar ættu að gera það hið snarasta og lesa fyrir þau litlu en geta líka notið þess að hlusta á hljóðbókina þar sem þýðandinn les söguna svo vel. Leikgerðin sem Selfyssingar nota er sú sem var sýnd í Þjóðleikhúsinu 1998 og er eftir Evu Sköld, einnig í þýðingu Þorleifs Haukssonar en Þórarinn Eldjárn samdi söngtextana.

Það væri hægt að lýsa boðskapnum og ævintýrinu í verkinu í löngu máli og velta fyrir sér merkingu, marglaga táknum og vísunum en hér skal minnst á aðalatriðið í sýningunni. Leikstjórinn hefur fengið feikna efnilega drengi í aðalhlutverkin, og sinnt þeim af hlýju og alúð, þá Baldvin Alan Thorarensen og Bjarka Þór Sævarsson. Þeir voru báðir öruggir og skýrmæltir en best var hið fallega samband á milli þeirra sem snertir svo mjög við lesendum bókarinnar og tókst ekki síður hér. Þeir fengu tárin auðveldlega til að spretta fram og höfðu salinn með sér frá fyrstu stundu.  Það var frábært að sjá hve vel Sigrún leikstjóri nýtti sér leikhæfileika og sterka sviðsnærveru Baldvins Alans í hlutverki Snúðs litla Ljónshjarta. Drengurinn var alltaf í miðpunkti  sviðsins sem sögumaður og sá sem þroskast mest og lærir. Og þannig var birt vel hin skýra sögn: Þó að maður verði hræddur er fyrir öllu að reyna að vera hugrakkur og hjálpa öðrum í vanda en ekki vera lítið skítseiði eins og Snúður segir svo oft.  Hjálpa fólkinu að fá frelsi frá einvaldinum ógurlega sem beitti náttúruaflinu Kötlu fyrir sig. Þannig birtist drengurinn litli sem ljósið í myrkrinu.

Fjöldinn allur af fólki vann við sýninguna bak við tjöldin en tuttugu leikarar voru á sviðinu, mest ungt fólk og slatti af börnum og unglingum. Sumir að leika í fyrsta sinn, sumir með leiklistarnámskeið hjá félaginu og nokkrir reyndari félagar. Allt gekk snuðrulaust, tímasetningar voru í lagi; spenna, ótti, gleði og fyndin atriði skiptust á. Menn Þengils voru svo vitlausir og grimmir, þeir góðu voru svo einlægir og sannfærandi, Skrímslið Katla var ónvekjandi en bara mátulega. Börnin í salnum heyrðust kalla hvert til annars að þetta væri allt í lagi þegar óhugnaðurinn var sem mestur vegna þess að þetta væru gerfi! Er þá ekki tilganginum náð? Þó að stundum þurfi að halda fyrir augun á þeim allra yngstu.

Sögur Astrid Lindgren eru sígild ævintýri sem hægt er að njóta aftur og aftur í nýjum búningum. Það er varla hægt að hugsa sér betri stund á frídegi, fyrir börn á öllum aldri, en að heillast inn í ævintýrið um Ljónshjarta hjá Leikfélagi Selfoss og koma svo út í veruleikann sem betri manneskja. Ekki lítið skítseiði.

Hrund Ólafsdóttir