Laugardaginn 8. mars frumsýnir Borgarleikhúsið Furðulegt háttalag hunds um nótt á Stóra sviðinu. Verkið hefur slegið rækilega í gegn á West End, var ótvíræður sigurvegari sviðslistaverðlauna Breta, Olivier Awards, á síðasta ári hlaut sýningin alls sjö verðlaun, m.a. sem besta sýningin og besta leikritið. Engin sýning hefur áður hlotið fleiri verðlaun á hátíðinni. Hilmar Jónsson leikstýrir sterkum hópi leikara með Þorvald Davíð Kristjánsson í aðalhlutverki.

Finnur Arnar Arnarsson hannar leikmynd, Þórunn María Jónsdóttir búninga og Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsingu. Danshöfundur sýningarinnar er Lee Proud og myndband hannar Petr Hloušek en báðir ljáðu Mary Poppins listræna krafta sína á síðasta leikári. Frank Þórir Hall er höfundur tónlistar en Ásgeir Trausti semur og flytur titillag sýningarinnar „Frá mér til ykkar“.

Sagan: Christopher er fimmtán ára stærðfræðiséní. Þegar hundur nágrannans finnst dauður einn morguninn ákveður hann að komast að því hvað býr að baki. Í rannsókninni kemst Christopher á snoðir um dularfull bréf sem tengjast fjölskyldu hans. Við tekur hættuför til borgarinnar sem hefur í för með sér óvæntar afleiðingar og umturnar lífi hans svo um munar. Við fylgjumst með því hvernig einstökum dreng reiðir af í heimi fullorðna fólksins, sjáum spegilmynd hins venjulega í augum hins óvenjulega. Verkið er í senn spennandi morðsaga og þroskasaga ungs drengs á jaðri samfélags – sérstakt, hlýlegt og fyndið og lætur engan ósnortinn.

Verkið: Leikrit Simon Stephens byggir á samnefndri skáldsögu Mark Haddon. Bókin vakti mikla athygli þegar hún kom út og hlaut öll helstu bókmenntaverðlaun þess árs.
Furðulegt háttalag hunds um nótt var ótvíræður sigurvegari sviðslistaverðlauna Breta, Olivier Awards í ár. Þar hlaut sýningin alls sjö verðlaun, þ.á.m. sem besta sýningin og besta leikritið. Engin sýning hefur áður hlotið fleiri verðlaun á þeirri hátið enda nýtur hún gríðarlegrar hylli í London og er enn sýnd fyrir smekkfullu húsi.
Listrænir stjórnendur sýningarinnar unnu mikið saman á gullaldarárum Hafnarfjarðarleikhússins en þeim bætist nú liðsauki í Lee Proud, danshöfundinum frábæra sem stýrði einstökum dansatriðum Mary Poppins í fyrra.

Aðstandendur: Höfundur: Simon Stephens | Leikstjórn: Hilmar Jónsson | Þýðing: Guðrún Vilmundardóttir | Leikmynd: Finnur Arnar Arnarsson | Búningar: Þórunn María Jónsdóttir | Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson |Tónlist: Frank Þórir Hall | Titillag: Ásgeir Trausti | Hljóð: Thorbjoern Knudsen | Leikgervi: Margrét Benediktsdóttir | Danshöfundur:  Lee Proud | Myndband: Petr Hloušek
Leikarar: Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Bergur Þór Ingólfsson, Brynhildur Guðjónsdóttir, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Jóhann Sigurðarson, Arnar Dan Kristjánsson, Sigurður Þór Óskarsson, Maríanna Clara Lúthersdóttir