Síðasta sunnudag skellti ég mér á sýninguna Sambýlingar eftir Tom Griffin, sem Halaleikhópurinn er að setja upp um þessar mundir. Oddur Bjarni Þorkelsson og Margrét Sverrisdóttir sáu um leikstjórn að þessu sinni, en þau hafa tvisvar sinnum áður unnið með þessum leikhóp.
Verkið fjallar um fimm einstaklinga, fjórir af þeim búa undir sama þaki. Þrír af þeim eru þroskaheftir og sá fjórði er með geðklofa á háu stigi. Sá fimmti er umsjónarmaður þeirra. Fáum við að fylgjast með samantekt af tveggja mánaða tímabili í lífi þeirra, eða þangað til umsjónarmaðurinn yfirgefur þá fyrir annað starf.
Sviðið var langt og grunnt. Sátu áhorfendur til hliðar í rýminu ef svo má að orði komast. Staðurinn sem leikritið fór að mestu fram á var á heimili fjórmenninganna, sem spannaði alla lengd salarins. Hefði auðveldlega verið hægt að setja verkið upp með mun minna sviði, en lengdin gaf færi á fjölbreytilegri umferð um sviðið. Var rýmið nýtt vel í leiknum.
Aðalleikararnir fimm: Þröstur Jónsson sem lék hinn taugaveklaða Arnald, Kristinn S. Axelsson sem fór með hlutverk einfeldningsins Lárusar, Arnar Þorvarðarson sem lék hinn háværa en rómantíska Rúnar, Daníel Þórhallsson sem túlkaði óraunsæjar golfsveiflur Baldurs og síðast en ekki síst Gunnar Gunnarsson sem fór með hlutverk hins þolinmóða og skilningsríka Þórs. Allir skiluðu sínu hlutverki vel frá sér. Persónur voru skýrar, textinn var skýr og samleikur þeirra var góður. Það sama má segja um aðra leikara í verkinu. Þetta virðist vera góður og samheldinn hópur sem vinnur sína vinnu vel. Ef til vill vantaði örlítið uppá hraða og orku í fyrri þættinum, þar náðist ekki að kitla hláturtaugarnar eins mikið og verkið hefur burði til. Var eins og hópurinn væri að koma sér í gang. Enda bættu þau um betur eftir hlé, því þá náðist betri tenging við áhorfendur og annars ágætur leikur varð þéttari.
Satt best að segja var mér leikurinn og útfærsla verksins ekki efst í huga að sýningu lokinni heldur hvað sýningin skildi eftir sig, sem vill oft verða þegar saga vel sögð. Það er dregin upp súrsæt en trúverðug mynd af lífi þroskahamlaðra og geðfatlaðra einstaklinga. Sem dæmi er það minnistætt þegar persónan Þór segir í vangaveltum sínum um hugsanagang íbúanna: „Sjáðu til, vandamálið er að þeir breytast aldrei. Ég breytist, líf mitt breytist, vandamál mín breytast. En þeir eru alltaf eins.“
Til að gera langa sögu stutta, þá er þetta fallegt og vel uppsett verk sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Vil ég óska Halanum til hamingju og hvet alla til að láta þetta ekki framhjá sér fara.
Hörður Skúli Daníelsson