Leikfélag Kópavogs
Þrjár systur eftir Anton Tshekov
Leikstjórn: Rúnar Guðbrandsson

Það er alltaf ánægjulegt þegar íslenskt leikhús býður áhorfendum upp á gullmola heimsleikbókmenntanna eins og t.a.m. verk Rússans Antons Tsjekhov. Síðast bauð Borgarleikhúsið upp á Kirsuberjagarðinn árið 2011 og það eru komin 16 ár síðan að Þrjár systur var sýnt í Þjóðleikhúsinu. Leikfélag Kópavogs og leikstjórinn Rúnar Guðbrandsson ráðast því ekki á garðinn þar sem hann er lægstur með sýningu á Þremur Systrum og ég verð að viðurkenna að mér fannst það djörfung að ráðast í að sviðsetja verkið óstytt og bjóða áhorfendum upp á þriggja tíma ferð um veröld Tsjekovs. Það er skemmst frá því að segja að sú ákvörðun var hárétt og ég fór heim í lok sýningar verulega ánægður.

Sviðsetning verksins á litla sviðinu í Leikhúsi Kópavogs er mjög vel heppnuð. Rúnar Guðbrandsson, sem er einn af bestu leikstjórum landsins, heldur um taumana af næmni og með einstökum skilningi á verkinu og getu leikhópsins. Flæði verksins er hnökralaust og persónur, saga og atvik skýrt teiknuð. Leikmynd Klæmints Henningssonar og lýsing Skúla Rúnars Hilmarssonar er fallegt verk þar sem er nostrað er við smáatriði og sem þjónar sviðsetningunni vel og búningar Dýrleifar Jónsdóttur ná tísku og tíðaranda aldamótanna nítjánhundruð í Rússlandi afar vel. Tónlist þeirra Ármanns Guðmundssonar, Lofts Sigurðar Loftssonar og Ninnu Körlu Katrínardóttur er unaðsleg og sérstaklega vel nýtt í skiptingum og í verkinu í heild.

Leikhópurinn hjá Leikfélagi Kópavogs er afar hæfileikaríkur og ég yrði ekki hissa á því að sjá sum þeirra á fjölum atvinnuleikhúsanna á næstu árum.
Helga Björk Pálsdóttir, María Björt Ármannsdóttir og Díana Ellen Hamilton leika systurnar þrjár, Olgu, Írinu og Möshu og þær draga upp hver og ein sterka og skýra mynd af konum sem þurfa að glíma við nýja og breytta þjóðfélagsstöðu, ástir og sorgir. Þórarinn Heiðar Harðarson leikur bróður þeirra Andrei og fer vel með hlutverk manns sem sér draumana renna úr greipum sér og lætur kúga sig bæði heima og í starfi. Konu hans Natalyu, leikur Erna Björk Hallbera Einarsdóttur af mikilli innlifun og leikni og uppskar oft hlátur og gnístran tanna hjá mér. Friðfinnur Hermannsson leikur kennarann og eiginmann Möshu Kúlygín, og fer vel með hlutverk sem kallar bæði á kátínu og harm. Máni Arnarson leikur ofurstann Vershínin og nær vel bæði kómískum og tragískum hliðum þessa einstaklega djúpraddaða heimspekings og hjartaknúsara. Haukur Ingimarsson leikur baróninn Túzenbach vel og uppskar margan hláturinn og félaga hans kafteininum Saljóni gerir Askur Kristjánsson góð skil. Stefán Bjarnason leikur lækninn Tsjebútikín af list og gerir afar vel skil einu eftirminnilegasta atriði verksins. Helgi Axel Baxter og Óskar Þór Hauksson eru skemmtilegir Fedotik og Rode. Einkar skemmtilegar persónur í verkinu eru vinnuhjúin Ferapont og Anfisa í meðförum þeirra Aðalgeirs Gests Vignissonar og Önnu Margrétar Pálsdóttur. Flottur leikhópur.

Þrjár systur fjalla á táknrænan hátt um hnignun og fall yfirstéttarinnar í Rússlandi og er á vissan hátt fyrirboði byltingarinnar 17 árum síðan. Verkið fjallar líka um fólk, ástir þess og sorgir, gleði og harm. Margir halda kannski að 100 ára gamalt, þriggja tíma leikrit sé leiðinlegt en uppsetning Leikfélags Kópavogs á þessum gullmola leiklistarsögunnar í leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar er frábært afrek og gott dæmi um vel heppnað samstarf atvinnufólks og áhugafólks í sviðslistum. Þrjár Systur er sko ekki leiðinlegt. Það er fyndið, skemmtilegt og betra drama en þú sérð nokkurn tíma í sjónvarpinu og ég hvet alla til að fara á þessa æðislegu sýningu sem ég gef hiklaust fjórar stjörnur.

Lárus Vilhjálmsson