Sýningar á aðventuleikritinu Leitinni að jólunum hefjast að nýju í Þjóðleikhúsinu um næstu helgi, en þá verður sýnd tvöhundruðasta sýningin á verkinu. Vinsældir sýningarinnar eru með eindæmum, en hún er nú sýnd níunda leikárið í röð og margir gestir koma í Þjóðleikhúsið á aðventunni ár eftir ár, til að fyllast gleði og anda jólanna. Höfundur verksins, myndlistarmaðurinn og rithöfundurinn Þorvaldur Þorsteinsson, lést langt fyrir aldur fram fyrr á þessu ári. Leitin að jólunum er, ásamt Skilaboðaskjóðunni sem Þjóðleikhúsið hefur sett upp tvisvar sinnum á Stóra sviðinu, eitt aðsóknarmesta verk Þorvaldar.
Leitin að jólunum var frumsýnd árið 2005 og hlaut Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins. Í leikritinu eru meðal annars fluttar hinar sívinsælu Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum, með tónlist eftir Árna Egilsson.
Tveir skrýtnir og skemmtilegir náungar taka á móti litlum leikhúsgestum í anddyri Þjóðleikhússins. Með þeim í för eru tveir hljóðfæraleikarar og þessi fjörugi hópur leiðir börnin með leik og söng um leikhúsið. Börnin ferðast inn í ævintýraveröld jólanna og sjá leikþætti um jólin í gamla daga og á okkar tímum.
Leikarar í sýningunni í ár eru Ólafur Egill Egilsson, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Saga Garðarsdóttir, auk nokkurra barna sem skiptast á að fara með hlutverk í sýningunni. Leikstjóri er Þórhallur Sigurðsson.