Sýningin fjallar um óstýriláta, heimtufreka stúlku, Viktoríu að nafni, sem búin er að tapa sér í græðgi í veraldlega hluti. Viktoríu er lítið sinnt af föðurnum Merði sem telur mikilvægara að græða peninga en að sinna dóttur sinni. Fóstran Fjóla sér svo til alfarið um stúlkuna og reynir að innræta henni hin góðu gildi. Fjólu berst liðsauki þegar sönghópur frá Hjálpræðishernum mætir á staðinn en þó skiptir sköpum á sjálfa jólanótt þegar sjálf Viskan, ásamt fylgiverum birtast Viktoríu. Þessi skemmtilegi jólasöngleikur inniheldur fjölmörg vinsæl erlend lög í íslenskum búningi, óvæntar uppákomur og skemmtilega dansa. Jólaálfar birtast, Camilla frænka kemur í heimsókn og að sjálfsögðu birtist jólasveinn, en þó alfarið í nýjum búningi.
Sýningartími er rétt undir klukkustund. Sýningatímar eru virka morgna kl. 9.30 og/eða 11.00, virka eftirmiðdaga kl. 17.00 og um helgar kl. 14.00 og/eða 16.00.
Miðaverð er kr. 1.000 – gjöf en ekki gjald, vilja margir meina
Kaup á einni sýningu (150 sæti) er tilvalið fyrir starfsmannafélög og skóla. Þá er miðaverð kr. 650 á einstakling og heildarverð fyrir sýningu kr. 97.500. Í þeim pakka er einnig piparkökur og djús fyrir áhorfendur eftir sýningu.
Miðapantanir er í miðasölu Iðnó sími 562-9700 (milli kl. 11.00-16.00 virka daga)
Jólagjafasöfnun fyrir Mæðrastyrksnefnd er árleg hefð. Áhorfendur geta komið með pakka á sýningar, merktan aldri og kyni og Borgarbörn koma til skila til Mæðrastyrksnefndar fyrir jól.