Freyvangsleikhúsið í Eyjafirði æfir nú af kappi fjölskylduleikritið Emil í Kattholti eftir Astrid Lindgren. Í ár eru 50 ár síðan fyrsta bókin kom út um Emil og strákapörin hans og m.a. í tilefni af því setur Freyvangsleikhúsið upp þessa sýningu. Þetta er mannmörg sýning með mörgum og skemmtilegum söngvum, fimm manna hljómsveit og 16 leikurum. Í hlutverki Emils er Sigurður Bogi Ólafsson 11 ára og Idu litlu systur hans leikur Steingerður Snorradóttir 8 ára.

Þarna er um að ræða leikgerð sem ekki hefur verið sýnd áður hér á landi eftir Sören Dahl og Anders Baggesen, tónlistin er eftir Sören Dahl og Georg Rydell. Þýðandi leiktexta er Guðjón Ólafsson en söngtexta Hallmundur Kristinsson og gerir hann einnig leikmynd. Leikstjóri er Saga Jónsdóttir en tónlistarstjóri er Linda Guðmundsdóttir.

Frumsýning verður þann 18. október.