24. nóvember kl. 20:30 … Fimmtudaginn 24. nóvember kl. 20:30 frumsýnir Lýðveldisleikhúsið harmræna gleðileikinn Drauganet eftir Benóný Ægisson  í Tjarnarbíói. Verkið gerist í hugskoti höfundar sem er að reyna að skapa leikpersónur. Hann gerir ýmsar tilraunir á þeim og vekja þær sjaldnast mikla hrifningu leikpersónanna sem eru ofurseldar duttlungum höfundarins

Leikarar í verkinu eru Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Benóný Ægisson, Brynja Valdís Gísladóttir, Gunnar Eyjólfsson, Höskuldur Sæmundsson, Ingibjörg Stefánsdóttir, Ingibjörg Þórisdóttir, Kolbrún Anna Björnsdóttir, Ólafur Guðmundsson, Páll Sigþór Pálsson, Valgeir Skagfjörð, Þórunn Clausen og Þröstur Guðbjartsson. Leikstjóri er Darren Foreman, sviðshreyfingar eru eftir Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur en tónlist eftir Benóný Ægisson.

Leikpersónur verksins þrá það heitast að komast í leikrit en eru svo óheppnar að hafa lent hjá duglausum höfundi. Hann á erfitt með að koma verkunum frá sér enda hefur hann ekki hugmynd um að persónurnar eiga sér sjálfstætt líf utan vitundar hans. Hann hefur því ekki grænan grun um hvaða óleik hann er að gera þeim. Birtingarform leikpersónanna eru neytandinn sem vinnur sig upp í að verða álitsgjafi, fyrrverandi feitlaginn dægurlagasöngvari, venjuleg stelpa sem vinnur í sjoppu, formaður mannanafnanefndar, systir Siggu systur sem var ógeðslega fullkomin, stórkarl sem á svo mikið undir sér að hann lendir í erfiðleikum ef hann dansar kvikkstepp, súludansmær sem spyr grundvallarspurninga um lífið og tilveruna, fótboltabulla sem ávarpar föður sem er að meilbonda með syninum á vellinum, fyrirsæta í tilvistarkreppu, sjómaður sem er fluttur í elliblokk fyrir sunnan, eiginkona sem hefur tekið grínið í sína þjónustu til að lynda við eiginnmann sinn og húsvörður sem er öryrki og telur að hlutskipti sitt væri betra ef hann væri fluga sem líkaði vel að éta skít.

Drauganet verður sýnt í Tjarnarbíói fimmtudaginn 24. nóvember kl. 20:30 og verður aðeins þessi eina sýning enda er hún öðrum þræði leiklistargjörningur, sem hafði stuttan vinnslutíma og er að hluta byggður á spuna. Lýðveldisleikhúsið er nýstofnað leikhús sem hefur flutning samtímaverka á stefnuskrá sinni og er Drauganet opnunarsýning leikhússins en s.l. sumar frumsýndi hópurinn, sem stendur að því, leikritin How Do You Like Iceland? og Glæsibæjareintölin.

Sýning Í Tjarnarbíói fimmtudaginn 24. nóv kl. 20:30

Miðaverð: 1500 kr, 1000 kr f. skólafólk (drykkur innifalinn)

Aðeins þessi eina sýning!