Leikritið Harmsaga eftir Mikael Torfason verður sýnt í Kennedy Center í mars á næsta ári. Leikhópnum öllum og leikmynd verður flogið út til að vera eitt af stóru verkum á einni virtustu leikhúshátíð vestra.  Um er að ræða mikla viðurkenningu fyrir það listafólk sem kemur að sýningunni sem leikstýrt er af Unu Þorleifsdóttur. Þetta er hennar fyrsta verk í Þjóðleikhúsinu en auk hennar komu að sýningunni þau John Grant sem sá um tónlistina, Eva Signý Berger sem gerði leikmynd og búninga, Kristinn Gauti Einarsson sem skapar hljóðmynd og Magnús Arnar Sigurðarson sem hannaði lýsinguna.

Leikararnir, Elma Stefanía Ágústsdóttir og Snorri Engilbertsson, eru bæði nýlega útskrifuð úr Leiklistardeild Listaháskóla Íslands og heilluðust útsendarar frá Kennedy Center svo mjög af framistöðu þeirra og sýningunni allri á frumsýningu að hópnum var umsvifalaust boðið út og allt gert til að koma verkinu á dagskrá hátíðarinnar.

World Stages: International Theater Festival 2014 er árviss viðburður í Washington. Á hátíðinni eru mörg stór verk og miklir leikstjórar. Í sömu viku og Harmsaga verður frumsýnd í Bandaríkjunum verður leikritið Rupert eftir þekktasta leikskáld Ástrala, Lee Lewis, frumsýnt vestra en það fjallar um fjölmiðlamógúlinn Rupert Murdoch. Þá er á sömu hátíð franskt leikrit með Emanuelle Riva, aðalleikkonunni í Amour, frumsýnt.

„Við erum stollt af þeirri staðreynd að hátíðin okkar gefur mörgum af bestu leikurum, leikstjórum og leikskáldum heims tækifæri til að deila vinnu sinni með bandarískum leikhúsgestum,“ segir Alicia Adams, framkvæmdarstjóri hátíðarinnar, í tilkynningu.

Nú þegar er búið að bæta við aukasýningum á Harmsögu vegna aðstóknar en verkið er sýnt í Kassa Þjóðleikhússins.

Þar sem þessa fréttir voru rétt að berast okkur hjá Þjóðleikhúsinu í hús þá er enn ekki búið að setja inn upplýsingar um verkið á heimasíðu Kennedy Center.