Nú standa yfir hjá Norðurbandalaginu sýningar á nýju leikverki sem hlutið hefur nafnið Lúkas. Sýningin er spunasýning unnin af leikhópnum Norðurbandalaginu undir leikstjórn Jóns Gunnars Þórðarsonar. Sýnt er í Rýminu á Akureyri og næstu sýningar verða fimmtudagana 4. og 11. júlí. Verkið samanstendur af ótrúlegum sönnum sögum, sögum um fólk, hefnd og frið, sögur af því hversu orðljótt fólk getur verið á kommentakerfum veraldarvefsins.

Þekktasta sagan í verkinu er sagan um hundinn Lúkas sem týndist í kringum bíladaga árið 2007. Fljótlega fóru af stað sögusagnir og orðrómur um afdrif hundsins, hópur drengja átti að hafa troðið honum ofan í íþróttatösku og sparkað í hana þar til hundrurinn hætti að veina. Íslenska þjóðin sameinaðist í sorg og samhug og átti ótrúlega auðvelt með að trúa því slæma. Einn aðili var gerður að blóraböggli í „Lúkasarmálinu“. Hann var dæmdur af samfélaginu, en hvað gerðist svo?

Jón Gunnar Þórðarson er Akureyringum af góðu kunnur enda hefur hann sett upp allmargar sýningar á Eyjafjarðarsvæðinu undanfarin ár. Má þar nefna Hárið, Rocky Horror, Djáknann á Myrká, Himnaríki og Date svo eitthvað sé nefnt. Svo það má búast við því að áhorfendur skemmti sér konunglega á sögunni sem við öll tókum þátt í að skapa, Lúkas.

Leikendur eru Birna Pétursdóttir, María Dögg Nelson, Rán Ringsteð, Ólafur Ingi Sigurðsson, Gísli Björgvin Gíslason og Svanur Jóhannesson