Föstudaginn 26. og sunnudaginn 28. apríl verða síðustu sýningarnar á verkinu Nú er himneska sumarið komið eftir Sigtrygg Magnason í Dillonshúsi á Árbæjarsafni. Leikstjóri er Una Þorleifsdóttir og leikarar eru Hjalti Rögnvaldsson og Svandís Dóra Einarsdóttir. Agnieszka Baranowska hannar búninga. Umfjöllunarefnið er ást langömmu og langafa höfundar, sem náði út yfir gröf og dauða. Hún lést úr berklum 28 ára að aldri en nokkru eftir andlát hennar byrjaði hönd hans að hreyfast og skrifa, þar sem hann sat við borð og fyrstu orðin voru ástarorð til hans að handan.
Í verkinu fá áhorfendur að gægjast inn í stofu hjá einangruðum gömlum bónda og fylgjast með því þegar sonardóttir hans, Lilja, sem hann hefur ekki séð í 22 ár, mætir í óvænta heimsókn. Gamli maðurinn, sem hafði misst konu sína einhverjum tugum ára áður, hefur aldrei sleppt af henni tökunum. Honum finnst sem hún sé alltaf hjá sér, að bíða eftir að hann komi til hennar. Raunar er það auðvitað hann sem bíður og lifir fyrir það eitt að deyja. Lilja er einnig að upplifa erfiðleika í sínu lífi og er heimsókn hennar til afa síns, sem hún hefur aldrei þekkt, hennar tilraun til að annað hvort flýja sinn veruleika eða finna sjálfa sig.
Sýningin hefst kl. 20.00. Áhugasamir geta pantað miða með því að senda póst til himneska@gmail.com