Brúðuheimar fagna opnun á nýju leiksviði, Brúðuloftinu,sem er staðsett í aðalbyggingu Þjóðleikhússins. Brúðuheimar hafa átt frábært og farsælt samstarf við Þjóðleikhúsið til margra ára og nú er svo komið að Þjóðleikhúsið hefur boðið Brúðuheimum leiksvið sem bar heitið Leikhúsloftið til afnota og munu Brúðuheimar halda úti leikhúsi sínu þar næstu misserin, undir heitinu Brúðuloftið. Í tilefni opnunar á þessu nýja leikhúsi setjum við nú aftur upp hina margrómuðu sýningu um hana Gilitrutt en sýningin hlaut afburða dóma gagnrýnenda og Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins 2011.

Samhliða uppsetningunni kemur sagan um tröllskessuna ógurlegu út á bók sem gefin er út af Forlaginu. Bókin er byggðu upp með myndum úr leiksýningunni og eru höfundar Kristín María Ingimarsdóttir og Bernd Ogrodnik. Bókin er gefin út bæði á íslensku og ensku og sá Silja Aðalsteinsdóttir um þýðingu á texta Bernds yfir á íslensku. Útgáfuhóf verður haldið í Eymundsson í dag, fimmtudaginn 11. apríl klukkan 17.00, og verða höfundar á svæðinu og eru allir velkomnir. Nokkrir tilvonandi bókaeigendur geta átt von á að í bók þeirra leynist leikhúsmiðar á sýninguna um Gilitrutt.

Það er ekki annað hægt að segja en að síðastliðið ár hafi verið viðburðaríkt í lífi Bernds Ogrodniks, listræns stjórnanda Brúðuheima. Árið hófst með því að loka þurfti miðstöð Brúðuheima í Borgarnesi, sem voru þung skref – en um leið og einni hurð er lokað er öðrum lokið upp. Bernd flutti hálfunna sýningu sína um Gamla manninn og hafið suður til Reykjavíkur og fullkláraði hana í vistaverum Þjóðleikhússins. Þar frumsýndi hann sýninguna í samvinnu við Listahátíð í Reykjavík og bættist þar við enn einn gullmolinn í sýningasafn Brúðuheima.

Bernd dvaldi mikið í Kanada á síðasta ári og sýndi hann meðal annars yfir 150 sýningar þar í landi, auk þess sem hann smíðaði brúður fyrir uppfærslu Óperunnar í Vancouver á Töfraflautunni eftir Mozart. Bernd og Hildur, kona hans voru búin að ákveða að setjast að í Kanada um hríð en þegar Þjóðleikhúsið bauð þeim að flytja starfsemi Brúðuheima alfarið inn hjá þeim, bökkuðu þau með ákvörðun um búferlaflutninga vestur um haf.

Á síðasta ári hlaut Bernd tvær viðurkenningar sem honum þykir sérstaklega vænt um, annars vegar var viðurkenning sem ber nafnið Prix Michael Meschke en það er viðurkenning sem gefin er þeim alþjóðlega brúðulistamanni sem talinn er hafa skarað fram úr á sínu sviði og svo hlaut Bernd viðurkenningu úr Egner sjóðnum fyrir framlag sitt til barnaleikhússmenningar.

Stefnt er að sýningum á Gilitrutt fram í lok maí en þá tekur við uppsetning á næsta verki Brúðuheima sem verður uppfærsla á ævintýrinu um Aladín. Áætlað er að frumsýna Aladín í byrjun októbermánaðar og verður það í fyrsta skipti sem ævintýrið um Aladín er sett upp hér á landi.