Leikdeild UMFG leggur þessa dagana lokahönd á undirbúning fyrir sýningar á hinu geysivinsæla leikverki Sex í sveit. Leikstjórn er í höndum Bjarkar Jakobsdóttur. Frumsýnt verður í Árnesi föstudagskvöldið 28. febrúar kl. 20:00. Verkið sem er eftir Marc Camoletti í íslenskri þýðingu og staðfæringu Gísla Rúnars Jónssonar, er bráðskemmtilegur farsi sem gerist í íslenskum sumarbústað þar sem óvæntar uppákomur, flækjur og misskilningur valda ótal vandræðalegum – og hlægilegum – aðstæðum. Leikararnir sex geta vart beðið með að stíga á svið og tryggja áhorfendum kvöld fullt af hlátri og góðri stemmningu.
Björk Jakobsdóttir er reyndur leikstjóri og leikkona sem hefur komið víða við í leikhúsinu. Hún hefur leikstýrt fjölmörgum sýningum fyrir bæði börn og fullorðna og lagt sérstaka áherslu á að skapa líflega og kraftmikla sýningu sem höfðar til breiðs hóps áhorfenda. Með Björk við stýrið er tryggt að hláturinn verður aldrei langt undan.
Miðapantanir fara fram í gegnum netfang leikdeildarinnar: leikdeildumfg@gmail.com.
Sýningar verða sem hér segir:
Föstudaginn 28. Feb kl. 20
Sunnudaginn 2. Mars kl. 20
Þriðjudaginn 4. Mars kl. 20
Laugardaginn 8. Mars kl. 20
Þriðjudaginn 11. Mars kl. 20
Sýningin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Leikdeildin hvetur alla til að láta sjá sig í Árnesi til að kitla hláturtaugarnar í góðum félagsskap og sprúðlandi stemmningu.