Ormstunga/Ástarsaga, leikverk byggt á Gunnlaugs sögu Ormstungu eftir óþekkta konu eða mann í leikgerð Benedikts Erlingssonar og Halldóru Geirharðs, verður frumsýnt þann 8. febrúar á Nýja sviði Borgarleikhússins. Gunnlaugs saga er saga um ástir og afbrýði. Fyrsti og langfrægasti ástarþríhyrningur heimsbókmenntanna. Þar er rakin saga skáldsins Gunnlaugs Ormstungu frá Hvítársíðu, Helgu fögru úr Borgarnesi og Hrafns Önundarsonar úr Mosfellssveit. Leikstjóri er Peter Engkvist.
Blóðugur harmleikur þar sem tvinnast saman mikið ofbeldi, mikil ást og vísnagerð. Þótt sagan sé eftir óþekkta konu eða mann er hún samt lesin í grunnskólum landsins og ættu því að vera sem flestum kunn. Leiksýningin er nákvæm endursögn Gunnlaugs sögu Ormstungu og þó um leið ærslafull yfirreið um menningarheim Norðurlanda að fornu og nýju.
Benedikt og Halldóra hafa lengi verið í fararbroddi íslenskra leikara bæði fyrir og eftir aldamót. Benedikt skrifaði og lék einleikinn Mr. Skallagrímsson sem gekk fyrir fullu húsi (mjög litlu húsi) í mörg ár í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Þau skrifuðu svo leikritið um Jesú litla ásamt félögum sínum í Borgarleikhúsinu. Hér gefst leikhúsunnendum tækifæri til að sjá upphafið að þessu öllu saman. Ormstunga var fyrst sett upp í Skemmtihúsinu árið 1996 og gekk þar fyrir fullu húsi (litlu húsi) til aldamóta. Þau taka nú upp þráðinn 16 árum seinna og tvinna saman fornsöguna og samtímann á kvöldvaka í hinni nýju baðstofu Reykvíkinga, Borgarleikhúsinu. Eitthvað þjóðlegt og gamaldags fyrir alla fjölskylduna. Dróttkvæði, ofbeldi og drápur fyrir allan peninginn.