Föstudaginn 1. febrúar verður nýtt verk eftir Jón Atla Jónasson, Nóttin nærist á deginum, frumsýnt á Litla sviði Borgarleikhúsins. Í aðalhlutverkum eru Elva Ósk Ólafsdóttir og Hilmar Jónsson en Jón Páll Eyjólfsson leikstýrir verkinu. Hjón á fimmtugsaldri standa allslaus og ein eftir hrunið. Þau búa í hálfkláruðu einbýlishúsi með kjallaraíbúð sem var ætluð dóttur þeirra þegar hún kæmi heim úr sérnáminu. En hún er ekki á leiðinni heim. Eiginmaðurinn ákveður að gera allt sem í hans valdi stendur til að halda í drauminn um það sem átti að verða. En það hafa ekki allir kjarkinn til þess að byrja upp á nýtt.

Jón Atli Jónasson er eitt helsta leikskáld þjóðarinnar og starfar nú sem eitt leikskálda Borgarleikhússins. Verk hans fjalla um íslenskan samtíma og íslensku þjóðina. Þau hafa verið sett upp víða um heim og tvö þeirra, Brim og Djúpið, hafa verið kvikmynduð. Á síðustu árum hefur Jón Atli sett upp þrjú verk fyrir Borgarleikhúsið, Þú ert hér, Góðir Íslendingar og Zombíljóðin í samstarfi við félaga sína Jón Pál Eyjólfsson og Hall Ingólfsson. Jón hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín. Nú síðast hlaut hann Norrænu útvarpsleikhúsverðlaunin og Grímuverðlaunin fyrir besta útvarpsverkið.

„Hún er að komast yfir erfiðasta hjallann. Ég hef trú á því að þetta lagist af sjálfu sér. Að hjólin fari aftur af snúast.“  – Úr Nóttin nærist á deginum

Leikmynd og búningar og búninga hannar Ilmur Stefánsdóttir, um ljósahönnun sér Björn Bergsveinn Guðmundsson og höfundur tónlistar er Hallur Ingólfsson.