Nú á sunnudaginn verður fimmtugasta sýning á Dýrunum í Hálsaskógi í Þjóðleikhúsinu og í lok hennar verða afhentir styrkir úr Egner-sjóðnum. Jafnframt er von á 25 þúsundasta gestinum á sýninguna. Í ár er haldið upp á 100 ára afmæli Thorbjörns Egners í Þjóðleikhúsinu með margvíslegum hætti. Tvö af leikritum hans eru í sýningu um þessar mundir en auk Dýranna í Hálsaskógi eru þeir bræður Karíus og Baktus að gera garðinn frægan í Kúlunni.

Egner-sjóðurinn var stofnaður árið 1975  á 25 ára afmæli Þjóðleikhússins.  Þá heimsótti Thorbjörn Egner leikhúsið og gaf því sýningarrétt og höfundarlaun verka sinna á Íslandi. Tekjur sjóðsins hafa verið nýttar til að veita styrki til leikhúsfólks og til að efla leikhússtarf í þágu barna. Í sjóðstjórn sitja nú auk þjóðleikhússtjóra, Tinnu Gunnlaugsdóttur, þau Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur og Þórhallur Sigurðsson, leikari og leikstjóri.

Í anddyri Þjóðleikhússins hefur verið komið upp sýningu á teikningum og myndum sem tengjast verkum hans sem sett hafa verið upp hér í húsinu allt frá árinu 1960.