Mary Poppins hópurinn, listrænir stjórnendur, leikarar, dansarar, söngvarar, tónlistar- og tæknimenn koma saman á fyrstu samæfingu á morgun sem markar upphafið af spennandi og krefjandi æfingaferli. Þá verður leikmynd kynnt, verkið leiklesið í heild sinni í fyrsta sinn og að endingu mun danshöfundur sýningarinnar Lee Proud drífa hópinn út á gólf á fyrstu dansæfinguna. Hátt í 50 manns eru á sviði í Mary Poppins og mikill fjöldi á bak við tjöldin enda er sýningin einstaklega viðamikil og flókin tæknilega. Bergur Þór Ingólfsson leiktýrir verkinu en tónlistarstjóri er Agnar Már Magnússon en hann leiðir 10 manna hljómsveit sem spilar í sýningunni.

Leikmyndahönnuður er Petr Hloušek, en hann hefur hannað fjölmargar risasýningar víðsvegar um Evrópu og María Ólafsdóttir hannar búninga. Danshöfundur sýningarinnar er einn heitasti danshöfundur Evrópu um þessar mundir, Lee Proud og hefur Íslenski Dansflokkurinn gengið til liðs við listamenn Borgarleikhússins í þessari sýningu. Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Guðjón Davíð Karlsson eru í hlutverkum Mary Poppins og sótarans Bert og æfa nú söng og stepp af mikilli elju ásamt fleiri leikurum og börnum sýningarinnar. Frumsýning er föstudaginn 22. febrúar.

Allt getur gerst í söngleiknum um Mary Poppins – ef þú leyfir því að gerast! Hér er ekkert venjulegt leikverk á ferðinni; sagan er leiftrandi og sjónarspilinu eru engin takmörk sett. Áhorfendur fylgjast með Mary Poppins lífga upp á heimilislífið í Kirsutrjárunni, breyta grárri Lundúnaborg í litríkt ævintýri þar sem sótarar dansa upp um veggi og loft. Tónlistina þekkja allir og hún birtist hér í nýjum heillandi útsetningum. Dansatriðin í Mary Poppins eru stórglæsileg enda gengur Íslenski dansflokkurinn til liðs við listamenn Borgarleikhússins í þessari stórsýningu.

Kvikmyndin um Mary Poppins sló rækilega í gegn um allan heim þegar hún var frumsýnd árið 1964 með Julie Andrews í aðalhlutverkinu. Myndin fékk fimm Óskarsverðlaun og er löngu orðin sígild. Það var svo árið 2004 að loks var gerður söngleikur. Hann fékk hreint ótrúlegar viðtökur þegar hann var frumsýndur á West End; hlaut sjö Tony verðlaun, m.a. sem besti söngleikurinn. Síðan hefur Mary Poppins farið sigurför um heiminn og notið mikilla vinsælda. Söngleikurinn um Mary Poppins hefur aldrei áður verið sýndur á Íslandi og ljóst að margir bíða spenntir eftir því að kynnast konunni sem kann að gera lífið ögn skemmtilegra.