Ferðin til Limbó, í leikstjórn Arnar Alexanderssonar og Sigrúnar Tryggvadóttur, er stórskemmtileg og lágstemmd skemmtun fyrir yngstu kynslóðina. Hér er fyrsta leikritið eftir íslenska konu sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu endurvakið og var það gert með mikilli grandgæfni, gleði og húmor.
Texti verksins er skemmtilegur og lúmskt fyndinn, líka fyrir fullorðna og greinilega búið að aðlaga hann að nútímanum. Systkinin Maggi og Malla mús eru viðkunnanlegar persónur sem leikarar leika vel og með miklum tilþrifum. Orkustig leikaranna er hátt og kemistrían þeirra á milli er frábær. Móðursýki Möllu og hetjuskapur Magga blandast frábærlega saman og býr til mikla spennu fyrir lítil augu sem horfa agndofa á Falskónginn og klækjabrögð hans.
Fyndnar og snjallar leikhúslausnir eru notaðar í leikritinu en sem dæmi má þar nefna þrjá stóra skjái á sviðinu sem sýndu meðal annars ferðalag þeirra Magga og Möllu til plánetunnar Limbó sem og bráðfyndnu skoppandi gulu boltana á plánetunni. Leikurum tekst vel að útskýra snjöllu lögmál plánetunnar án þess þó að mata upplýsingar. Plánetan sjálf, Limbó, er full af bráðfyndnum bolta-verum sem slógu rækilega í gegn meðal áhorfenda.
Búningahönnun Maríu Bjartar Ármannsdóttur, þá sérstaklega búningar bolta-veranna, er einstaklega vel útpæld og virka vel á einföldu sviði. Það hefði verið aðeins of auðvelt að gera músagrímurnar ógnvekjandi en Maríu tekst vel að hanna fallegar og krúttlegar músagrímur sem gleður lítil hjörtu.
Ég mæli klárlega með Ferðinni til Limbó, sérstaklega fyrir þá sem eru að fara í sína fyrstu leikhúsferð og langar að skemmta sér konunglega!
Hrafnhildur Rafnsdóttir