Leikfélag Húsavíkur hefur að undanförnu æft Söngleikinn Ást eftir þá Vesturportsfélaga Gísla Örn Garðarsson og Víking Kristjánsson. Söngleikurinn Ást er íslensk saga, sem tekur á ástinni á fjörugum nótum en – eins og vera ber – með alvarlegum undirtón. Víst er, að áhorfendur munu skemmta sér konunglega og finna til samúðar með persónum verksins – við þekkjum þau öll úr okkar umhverfi og tíma. Frumsýnint verður laugardaginn 24. nóvember n.k. og mun vissara að tryggja sér miða í tíma, enda gekk Söngleikurinn Ást fyrir fullu húsi á sínum tíma á fjölum Borgarleikhússins.

Nína birtist einn daginn á elliheimilinu og ætlar sér ekki að vera þar nema skamma stund – en svo hittir hún Grjóna og ástin fyllir líf þeirra – en það eru víst ekki allir ánægðir með það!

Frumsýning 24. nóvember 16.00 UPPSELT
2. sýning – 27. nóvember kl 20.00
3. sýning – 30. nóvember kl 20.00
4. sýning – 1. desember kl 16.00
5. sýning – 2. desember kl 16.00

Æfingar fara fram undir leikstjórn Jakobs S. Jónssonar og Knúts Emils Jónassonar, tónlistarstjóra en mikið er af innlendum og erlendum sönglögum í leiknum. Það er þó nýmæli að fyrir sýningu Leikfélags Húsavíkur hefur þorrinn af erlendu lögunum verið íslenskaður og lagaður að sýningunni. Erlendu lögin eru öll velþekkt eftir höfunda á borð við John Lennon, Paul McCartney, Lou Reed og fleiri sæmdarmenn. Íslensku lögin eru m.a. eftir Valgeir Guðjónsson, Megas, Eyjólf Kristjánsson o.fl.

Með Söngleiknum Ást ætlar Leikfélag Húsavíkur i samvinnu við fyrirtæki í bænum og Húsavíkurstofu að gera Húsavík að sannkallaðri höfuðborg ástarinnar. Boðið verður uppá leikhúsferðir í samstarfi við ferðaþjónustaðila og tækifæri að kynnast höfuðborg Ástarinnar og nágrenni hennar. og bjóðast leikhúsferðir á góðum kjörum frá gervöllu Norður- og Austurlandi og Reykjavík. Samvinnuaðilar eru Fjallasýn ehf., Veitingahúsið Salka, Foss Hótel Húsavík og Flugfélagið Ernir.