Leikfélag Ölfuss frumsýnir sunnudaginn 21. október fjölskylduleikritið Rummung ræningja eftir þýska barnabókahöfundinn og leikskáldið Otfried Preussler. Þetta er ævintýri eins og þau gerast best og koma við sögu máttug galdranorn, talandi froskur, spilandi kaffikvörn, sex fötur af kartöflum og svo auðvitað sjálfur Rummungur, grimmastur og ógurlegastur allra ræningja í Ræningjaskógi. Leikstjóri er Ármann Guðmundsson en hann gerði jafnframt nýja þýðingu verksins. Sýnt er í Versölum, Þorlákshöfn.

Frændurnir Kaspar og Sæli gefa ömmu sinni dýrindis kaffikvörn í afmælisgjöf og það er ekki nóg með að hún mali kaffi heldur spilar hún uppáhalds lagið hennar ömmu í leiðinni. Amma fær þó ekki að njóta kaffikvarnarinnar lengi því hinn grimmi og ógurlegi Rummungur ræningi rænir henni af ömmu áður en afmælisdagurinn er liðinn. Þar sem lögregluþjóninn Vindbelgur varðstjóri er meira fyrir að auglýsa eftir glæpamönnum en beinlínis handtaka þá ákveða Kaspar og Sæli að leggja gildru fyrir Rummung, taka hann fastann og endurheimta kaffikvörnina. Margt fer þó öðruvísi en ætlað var og áður en þeir vita af eiga þeir ekki bara í útistöðum við Rummung heldur líka hina lævísu galdranorn Þeófílíu Plúmmendrúpp sem býr yfir dularfullu leyndarmáli í kjallaranum sínum.

Alls taka sjö leikendur þátt í verkinu. Þess má geta að sl. september voru 50 ár liðin frá því bókin um Rummung, eða Räuber Hotzenplotz eins og hann heitir á frummálinu, kom fyrst út.

Frumsýning sunnudaginn 21. október kl. 14.00
2. sýning sunnudaginn 28. október kl. 14.00
3. sýning laugardaginn 3. nóvember kl. 14.00
4. sýning sunnudaginn 4. nóvember kl. 14.00

Miðasala í síma 664-6454 (Þrúður) og 692-2761 (Jóhanna)

Miðaverð er kr. 2000 (enginn posi á staðnum)

Rummungur ræningi er á Facebook!