Æfingar eru hafnar af fullum krafti á haustuppfærslu Íslensku óperunnar, Il Trovatore eftir Giuseppe Verdi, en þetta er í fyrsta sinn sem ópera hins ítalska meistara er færð upp í tónlistarhúsinu Hörpu. Nokkrir framúrskarandi listamenn á sviði tónlistar og leikhúss sameina krafta sína í uppfærslunni nú, bæði innlendir og erlendir. Kemur hljómsveitarstjórinn, Carol I. Crawford, til að mynda frá Bandaríkjunum og mun þetta vera í fyrsta sinn sem kona er hljómsveitarstjóri í óperuuppfærslu hjá Íslensku óperunni.

Þá syngur baritónsöngvarinn Anooshah Golesorki hlutverk Luna greifa á þremur sýningum, en hann deilir hlutverkinu með einum fremsta óperusöngvara okkar Íslendinga, Tómasi Tómassyni, sem þreytir frumraun sína á sviði Scala-óperunnar í Mílanó síðar í haust. Í aðalhlutverkum eru ennfremur nokkrir af fremstu söngvurum landsins; Jóhann Friðgeir Valdimarsson í hlutverki Manrico, Auður Gunnarsdóttir og Hulda Björk Garðarsdóttir í hlutverki Leonoru, Alina Dubik og Elsa Waage sem skipta með sér hlutverki Azucenu og Viðar Gunnarsson í hlutverki Ferrando. Í minni hlutverkum eru þau Gréta Hergils, Hanna þóra Guðbrandsdóttir og Snorri Wium í hlutverkum Ines og Ruiz.

Margverðlaunað einvalalið úr íslenskum leikhúsheimi sér um listræna stjórn sýningarinnar; leikstjóri er Halldór E. Laxness, leikmyndahöfundur er Gretar Reynisson, búninga hannar Þórunn María Jónsdóttir og lýsingu Björn Bergsteinn Guðmundsson. Stækkaður kór og hljómsveit Íslensku óperunnar taka ennfremur þátt í verkefninu.

Allt stefnir í að hér verði um áhrifamikla uppfærslu á þessu meistaraverki óperubókmenntanna að ræða, og talsvert ólíka að yfirbragði fyrri sýningum Íslensku óperunnar í Hörpu; Töfraflautunni og La Bohème síðastliðinn vetur. Ekki verður farin hefðbundin leið í útfærslunni á Il Trovatore – Trúbadúrnum – sögunni af sígaunasyninum og greifanum sem berjast um hylli hinnar fögru Leonoru. Verða möguleikar Eldborgar nýttir til fullnustu við að skapa dulúðugt og framandi andrúmsloft sem rímar vel við hinn spennuþrungna söguþráð óperunnar.

Alls verða sex sýningar á Il Trovatore í haust og verður frumsýning laugardagskvöldið 20. október kl. 20. Nánari upplýsingar um sýningardaga og hlutverkaskipan má finna á opera.is. Miðasala fer fram í Hörpu, á harpa.is og í síma 528 5050 og er almennt miðaverð 8.000 kr, en ýmsir verðflokkar eru í boði auk margskonar afsláttar.