Þriðjudaginn 29. maí kl. 20 verður fyrsti samlestur á Sjö samúræum sem Leikfélagið Sýnir hyggst setja upp í Elliðaárdal nú í sumar. Leikstjóri og höfundur leikgerðar er Guðmundur Erlingsson en verkið byggir hann á hinni klassísku kvikmynd Akiros Kurosawa sem aftur byggir á aldagamalli þjóðsögu. Frumsýnt verður um miðjan júlí og eru allir sem áhuga hafa á að taka þátt í sýningunni boðnir hjartanlega velkomnir. Samlesturinn verður að Eyjarslóð 9, húsnæði Hugleiks.
Sjö samúræar fjallar um íbúa afskekkts þorps sem búið hafa við að ræningjahópur hirði af þeim alla uppskeru aftur og aftur. Að lokum sjá þeir ekki annað ráð en að fá samúræa til að hjálpa sé að hrekja ræningjana á brott og tekst þeim að safna saman skrautlegum hóp af samúræum sem er tilbúinn að hjálpa þeim. En duga Sjö samúræar á móti heilum ræningjahóp?
Guðmundur Erlingsson er menntaður kvikmyndagerðarmaður og hefur undanfarin ár starfað með Hugleik þar sem hann m.a. leikstýrði verkinu Hannyrðum og hagleiksmönnum árið 2010 auk þess sem hann hefur leikstýrt þar nokkrum stuttverkum.
Leikfélagið Sýnir var stofnað af áhugaleikurum sem sóttu Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga árið 1997, fyrsta árið sem hann starfaði,. Þetta var fólk sem kom víðsvegar að af landinu og hefur félagið síðan skilgreint sem þannig þótt að undanförnu hafi starfsemin fyrst og fremst verið á suðversturhorninu. Leikfélagið hefur að mestu leyti starfað á sumrin og sett upp útileiksýningar og má þar nefna Draum á Jónsmessunótt Shakespeares, Máfinn eftir Chekov og Nýja tíma eftir Böðvar Guðmundsson sem var fyrsta stóra verkefni leikfélagsins og var sýnt víðsvegar um landið.
Frekari upplýsingar fást hjá Guðmundi í síma 663 9885 eða Ármanni í 864 4880.
{mos_fb_discuss:2}