Fastur, frumsamin leiksýning án orða, verður frumsýnd í Norðurpólnum kl. 20.00 næstkomandi fimmtudag, 17. Maí. Leikari og höfundur verksins er Benedikt Karl Gröndal. Honum til leikstjórnar og aðstoðar við höfundaverkið er Árni Kristjánsson. Í verkinu er kröftug og kynngimögnuð hljóðmynd sem er í höndum plötusnúðsins Einars Helgasonar.

Verkið fjallar um mann sem rankar við sér í lokuðum kassa í yfirgefinni verksmiðju. Hann kemst úr kassanum og virðist skilja að hann þurfi að komast út úr verksmiðjunni, en af hverju er hann aðeins í einum skó? Fastur er fyndinn „physical“ einleikur sem minnir á köflum á svarthvítar bíómyndir Chaplin og Buster Keaton.

Þetta er fyrsta sjálfstæða leikverkið eftir Benedikt Karl Gröndal en hann lærði úti í Danmörku í leiklistarskóla sem sérhæfir sig í kómískri og „physical“ leiklist. Á síðasta ári lék Benedikt með Grindvíska Atvinnuleikhúsinu GRAL í Endalokum alheimsins en einnig með ferðaleikhóp í Danmörku.

Benedikt fær aðstoð Árna Kristjánssonar við að semja verkið Fastur en Árni er einnig leikstjóri verksins. Árni hefur leikstýrt nýjum íslenskum verkum á borð við Ímyndaðar afstæðiskenningar eftir Ævar Þór Benediktsson fyrir Útvarpsleikhúsið, Kallinn sem gat kitlað sjálfan sig eftir leikhópinn Fjöður í hatti í Norðurpólnum og frumsamda einleikinn Á gólfinu í Iðnó en þar fór Árni sjálfur með eina hlutverk leiksins.

Næstu sýningar eru á þessum dögum:
17. Maí, kl. 20
18. Maí, kl. 20
24. Maí, kl. 20
25. Maí, kl. 20
7. Júní, kl. 20
8. Júní, kl. 20
14. Júní, kl. 20
24. Júní, kl. 20

Aðrar upplýsingar eru á http://midi.is/leikhus/1/7008/

Einnig er hægt að sjá stiklu: http://vimeo.com/41734448

{mos_fb_discuss:2}