Föstudaginn 30. mars frumsýnir Leikfélag Vestmannaeyja söngleikinn Banastuð sem er byggður á bandarísku B-myndunum The Evil Dead I og II og Army of Darkness. Um er að ræða hressilegan og fyndinn söngleik með blóðugu ívafi og er sýningin mjög tæknilega krefjandi fyrir félagið. Fimm ungmenni stela kari og róa út í Elliðaey þar sem brotist er inn í lundakofa til þess eins að komast í náðugt frí. Fljótlega fara undarlegir hlutir að eiga sér stað og upphefst hröð, spennandi og skemmtileg atburðarrás sem enginn sá fyrir. Leikstjóri er Guðjón Þorsteinn Pálmarsson.

Félagið hefur undirbúið sýninguna mjög vel og sem dæmi höfum við fengið hljóðmann sem kemur sérstaklega frá Leikfélagi Akureyrar til að fínstilla nýja hljóðkerfið hjá okkur þannig að hljóðið skilar sér fullkomnlega út í salinn. Hann heitir Gunnar Sigurbjörnsson, og er m.a. hljóðmaður Sigurrósar, en með komu hans erum við að setja punktinn yfir i-ið við hljóðmynd leikhússins. Þá eru allir söngtextarnir samdir sérstaklega fyrir þessa sýningu af Baldri Ragnarsyni úr Skálmöld og Ljótu hálfvitunum.

Með aðalhlutverk fer Zindri Freyr Ragnarson en með honum Ævar Örn Kristinsson, Heba Sigríður Jóhönnudóttir, Ingibjörg Ósk Marinósdóttir og Sunna Guðlaugsdóttir. Aðrir leikarar eru Ásta Steinunn Ástþórsdóttir, Alexander Páll Salberg, Birkir Högnason, Ástþór Ægir Gíslason, Líza Woodland, Jóhann Gíslason og Kristleifur Kristleifsson.

Leikhúsbandið skipa, Birgir Nielsen, Gísli Stefánsson, Páll Viðar Kristinsson, Högni Hilmisson og Matthías Harðarson og um bakraddir sjá Jórunn Lilja Jónasdóttir og Vilborg Sigurðardóttir.

Ljósahönnuður er Björn E. Sigmarsson, um förðun og gervi sjá Ásta Steinunn Ástþórsdóttir, Aníta Marý Vatnsdal, Heba Sigríður Jóhönnudóttir og Sígríður Þóra Ingadóttir, Hafdís Ástþórsdóttir og Anna Estar Óttarsdóttir frá Dízó sjá um hár og framkvæmdastjóri sýningarinnar, ljósa- og tæknimaður er Viktor Rittmüller.

 

{mos_fb_discuss:2}