Hugleikur sýnir á ný leikritið Sá glataði eftir tveggja vikna hlé. Handritið er eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur en hún vann það í samvinnu við leikstjórann Ágústu Skúladóttur og leikhópinn. Tónlist og söngtexta í verkinu samdi Þorgeir Tryggvason. Sýnt er í húsnæði leikfélagsins að Eyjarslóð 9.
Að þessu sinni fæst Hugleikur við eitt af grundvallarritum vestrænnar menningar, sjálfa Biblíuna. Megin efniviðurinn eru dæmisögur Jesú í Nýja Testamentinu, bæði þessar alþekktu um glataða soninn og miskunnsama Samverjann en einnig aðrar minna þekktar sem gjarnan fjalla um peninga og kallast þannig með áþreifanlegum hætti á við samtímann. Ágústa sér um að þræða þessar perlur upp á band með leikhópnum sem inniheldur bæði gamlar og gljáfægðar Hugleikskanónur og ferska og ilmandi nýliða. Líkt og oft áður í sýningum Hugleiks er tónlistin fyrirferðarmikil, en tónlistarstjóri er Þorgeir Tryggvason.
Næstu sýningar eru sem hér segir:
Laugardaginn 10. mars – UPPSELT
Sunnudaginn 11. mars – UPPSELT
Föstudaginn 16. mars – ÖRFÁ SÆTI LAUS
Laugardaginn 17. mars – ÖRFÁ SÆTI LAUS
Sýningarnar hefjast kl. 20.00.
Almennt miðaverð eru 2.000 krónur en 1.500 krónur fyrir nemendur, öryrkja og eldri borgara.
Allar nánari upplýsingar um uppsetninguna og leikfélagið má nálgast á vefnum www.hugleikur.is en þar er einnig tekið við miðapöntunum.