Óhætt er að segja að viðtökurnar á sýningu LA á Gulleyjunni hafa verið frábærar. Nú hafa verið sýndar hátt í þriðja tug sýninga, uppselt hefur verið á hverja einustu og hvergi lát á. Um síðustu helgi var fimmþúsundasti gesturinn á meðal áhorfenda og reyndist það vera Sigríður Kristín Sverrisdóttir frá Skriðu í Hörgársveit. Henni voru færðar gjafir og eftir sýninguna heilsaði hún uppá leikara Gulleyjunnar baksviðs. Það mátti sjá sjóræningjafána blakta vítt og breytt um bæinn af þessu tilefni.
Leikfélag Akureyrar býður leikhúsgestum upp á fjölbreyttar sýningar það sem eftir er af þessu leikári og því ættu allir að fá eitthvað fyrir sitt hæfi.
Súldarsker
Súldarsker er ærslafull ráðgáta eftir Sölku Guðmundsdóttur, nýtt íslenskt verk sem gerist í einangruðu bæjarfélagi sem á sér ógnvænlegt leyndarmál. Leikmyndin hefur vakið verðskuldaða athygli, þar á meðal hlotið Grímutilnefningu, en hún er að mestu gerð úr segulþráðum úr myndbandsspólum.
Súldarsker verður sýnt 16. og 17. mars í Rýminu. Ath. aðeins þessa einu helgi!
Saga þjóðar – á hundavaði
Saga þjóðar með stórhljómsveitinni Hundi í óskilum fékk stórkostlegar viðtökur þegar það var sýnt hjá LA fyrr í vetur og komust færri að en vildu. Þessi bráðfyndni tónlistargjörningur í leikstjórn Benedikts Erlingssonar er nú væntanlegur á fjalir Samkomuhússins á nýjan leik og verður sýndur um páskana.
Afinn
Afinn er íslenskur einleikur frá sömu framleiðendum og gerðu Hellisbúann og Pabbann. Hér er um að ræða sprenghlægilegan einleik sem farið hefur sigurför um landið. Einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, Sigurður Sigurjónsson, fer hreinlega á kostum í þessu hlýlega verki. Afinn verður sýndur í Samkomuhúsinu í apríl.
Miðasala og frekari upplýsingar um sýningarnar er að finna á leikfelag.is og í síma 4 600 200.
{mos_fb_discuss:2}