Hugleikur hóf vetrardagskrá sína föstudaginn 8. október með leikþáttadagskrá í Þjóðleikhúskjallaranum. Leiklistarvefurinn átti útsendara á staðnum eins og oft áður og hefur hann skrifað umsögn um dagskrána.
Stuttverkakvöld Hugleiks sem sýnd hafa verið um nokkurra missera skeið undir samheitinu ‘Þetta mánaðarlega’ eru að verða fastur liður í leiklistarlífinu. Dagskrárnar hafa að jafnaði verið sýndar í Kaffileikhúsinu en nú hefur félagið skipt um svið og sýnir í Þjóðleikhússkjallaranum. Þar er ætlunin að endurvekja skemmtikvöldin sem þar voru fastur liður hér í eina tíð og hefur Hugleikur verið fenginn til að sjá um hluta þeirrar dagskrár. Það er talsverð viðurkenning á starfinu sem Hugleikur má vera stoltur af.
Þegar boðið er upp á leikþáttadagskrár á borð við Þetta mánaðarlega skipta gæði hvers þáttar eðlilega mestu máli en þó er ekki eingöngu hægt að líta það þegar dagskráin er metin. Samsetning, lengd og röð þáttanna hafa einnig sín áhrif á áhorfendur og eru liður í þeim heildaráhrifum sem þeir verða fyrir. Dagskráin að þessu sinni er ansi stutt og hefði gjarnan mátt hafa 1-2 þætti í viðbót. Hún var þó að mestu skemmtileg eins og fullur salur áhorfenda gaf til kynna meðan á henni stóð.
Helgin eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Árna Friðrikssonar var fyrsti þátturinn á svið. Hann gefur innsýn í líf móður og tveggja uppkominna barna hennar og deilir á sambandsleysi og firringu innan fjölskyldunnar. Ágæt hugmynd og þátturinn lofaði góðu í blábyrjun en svo einhvernveginn datt botninn úr. Þar var fyrst um ræða að hann var of stuttur og þar að auki keyrður áfram á of miklum hraða. Enginn tími gafst fyrir áhorfendur að kynnast persónunum og þeir möguleikar sem voru fyrir hendi í undirbyggingu voru ekki nýttir sem skyldi. Leikararnir, þau Þórunn Guðmundsdóttir, Halla Gunnarsdóttir og Árni Friðriksson stóðu sig ágætlega en eins og oft áður spyr maður sig hversu skynsamlegt er að leikstjórar leiki sjálfir í eigin uppsetningum.
Snyrting eftir Nínu B. Jónsdóttur í leikstjórn Sesselju Traustadóttur var þar næst. Áhugaverður þáttur í byrjun en varð illskiljanlegur eftir því sem á leið og maður fékk á tilfinninguna að verið væri að reyna að koma þættinum fyrir í ramma sem hann passaði ekki í. Sigríður Birna Valsdóttir lék og gerði sitt svo sem ágætlega en þar sem fótfestuna skorti náði þátturinn ekki flugi. Hér skorti skýrari sýn á það hvað höfundurinn var að reyna að segja til að koma því til áhorfenda.
Eftir hlé var sýndur þáttur eftir Jón Guðmundsson með því skemmtilega heiti Hefur einhver sagt þér hvað þú ert líkur Robert Redford? Leikstjóri var Hrefna Friðriksdóttir og Árni Friðriksson lék. Þessi þáttur var annar af þeim tveimur þáttum sem hæst risu í dagskránni. Árni sýndi mjög skemmtilega takta í hlutverki hins óörugga og aumkunarverða sundlaugarvarðar. Þáttur var vel sviðsettur og rann vel enda fékk hann góð viðbrögð áhorfenda.
Þátturinn Snemma beygist krókurinn eftir Nínu B. Jónsdóttur er sérstakur að því leyti að þar mátti sjá persónur sem kynntar voru til sögunnar í verki höfundar, Enginn með Steindóri sem Hugleikur sýndi síðastliðinn vetur. Ágætur þáttur í sjálfu sér en líður fyrir þann leikstíl sem lagður er. Þátturinn hverfist um hin sérkennilegu mæðgin Svanlaug og Steindór sem leikin eru af Júlíu Hannam og hinum unga og efnilega Jóhanni Páli Jóhannssyni. Til að ná tilætluðum áhrifum með hinu afar sérkennilega sambandi þessa skrýtna tvíeykis hefði þurft jarðbundinn pól til samanburðar og mótvægis. Með því hinsvegar að leggja þann ýkjukennda leikstíl sem Fríða B. Andersen sýndi í hlutverki kennarans er dregið úr sérkennilegheitum mæðginanna sem veldur því að þátturinn flest einhvernveginn út. Ekki er hægt að skilja við þennan þátt án þess að minnast á frammistöðu hins unga Jóhanns Páls sem sýndi sérdeilis góða takta þrátt fyrir ungan aldur.
Síðasti þátturinn á dagskránni var Stefnumót eftir Þórunni Guðmundssdóttur í leikstjórn Rúnars Lund. Skemmtilegur þáttur eins og Þórunnar er von og vísa og mjög vel leikin af Sigurði H. Pálssyni og Hrefnu Friðriksdóttur. Höfundur fjallar um fyrirbærið blint stefnumót og leikur sér með þær sérkennilegu aðstæður sem skapast þegar fólk sem ekki þekkist mælir sér mót. Fáguð sviðsetning enda var þessi þáttur sá eftirminnilegasti á dagskránni ásamt ‘… Robert Redford’.
Eins og fyrr sagði var þetta skemmtileg dagskrá hjá Hugleik en í styttra lagi. Næsta dagskrá verður 4. og 5. nóvember og er full ástæða til að hvetja fólk að líta þá við í Þjóðleikhúskjallaranum.